Íslenski boltinn

Pablo Punyed vonast til að geta verið lengi í Víkinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pablo Punyed segist líða vel í Víkinni og vonast til að geta verið þar áfram.
Pablo Punyed segist líða vel í Víkinni og vonast til að geta verið þar áfram. Mynd/skjáskot

Um helgina varð Pablo Punyed Íslandsmeistari í knattspyrnu ásamt liðsfélögum sínum í Víking, en hann hefur nú unnið stóran titil með fjórum mismunandi félögum frá því að hann kom til Íslands árið 2012. Pablo var í stuttu spjalli við Stöð 2 og fór stuttlega yfir tímabilið, veru sína á Íslandi, og bikarkeppnina sem framundan er.

Um helgina varð Pablo Punyed Íslandsmeistari í knattspyrnu ásamt liðsfélögum sínum í Víking, en hann hefur nú unnið stóran titil með fjórum mismunandi félögum frá því að hann kom til Íslands árið 2012. Pablo var í stuttu spjalli við Stöð 2 og fór stuttlega yfir tímabilið, veru sína á Íslandi, og bikarkeppnina sem framundan er.

„Takk fyrir það. Stemningin var upp á tíu. Þetta var magnað að geta fagnað titlinum á heimavelli, ég hef aldrei gert það,“ sagði Pablo í samtali við Henry Birgi Gunnarsson.

„Við unnum með Stjörnunni úti í Kaplakrika og með KR úti á Valsvellinum. Þetta er allavega í fyrsta skipti sem að þetta er klárað á heimavelli og það er bara magnað.“

Aðspurður að því hvort að þetta hafi verið skemmtilegri Íslandsmeistaratitill en hinir sem hann hefur unnið segir Pablo að titillinn sem liðið vinni á næsta ári verði enn skemmtilegri.

„Ég held að hann verði skemmtilegri sá næsti sem er á leiðinni á næsta ári,“ sagði Pablo léttur. „En já, þetta var bara frábært. Fyrir alla í klúbbnum, alla sem eru í leikmannahópnum og alla stuðningsmenn, bara frábært.“

Pablo segir einnig að andinn í liðinu hafi verið mjög góður í sumar og hrósaði liðsfélögum sínum, sem og þjálfara.

„Ég fann það bara um leið og ég kom inn í þennan hóp. Leikmenn eins og Kári og Sölvi, þeir opna dyrnar fyrir mig og gerir þetta mjög auðvelt fyrir mig. Auðvitað er Arnar þjálfari mjög góður í að þjálfa, kenna og stjórna þessum egóistum sem eru inni í klefanum. Þannig að eins og ég segi þá gekk þetta allt mjög vel.“

Eins og áður segir hefur Pablo nú unnið fjóra stóra titla með fjórum mismunandi liðum. En hvernig stendur á því?

„Það kemur ekki alltaf svona, en vona og ég berst alltaf fyrir því að fá titilinn. Í lok dags þá geturðu ekki stjórnað því hvað hin liðin eru að gera, eða ekki. Það sem við vitum er að ef við spilum okkar leik þá koma úrslitin með því.“

„Þetta er mjög fyndið, en vonandi get ég verið hér í Víkinni lengi.“

Pablo kom til Íslands árið 2012 og lék þá með Fjölni, en fyrsta tímabilið hans í efstu deild var með Fylki árið 2013. Hann segist þó ekki hafa ætlað sér að stoppa svona lengi, og var ekki viss um að hann yrði lengur en einn til tvo mánuði.

„Ég var ekki viss um að ég yrði hér lengur en einn eða tvo mánuði sko. En konan mín er íslensk og nú á ég barn hér á Íslandi. Mér líður mjög vel hér og allir í Víkinni eru ein stór fjölskylda og mér líður mjög vel.“

„Ég er að bíða eftir ríkisborgararétti og vonandi er það bara á leiðinni.“

Hann sér framtíðina fyrir sér hér á Íslandi og segir að fótboltinn hér á landi stækki og verði betri með hverju árinu sem líður.

„Já, ég sé framtíðina fyrir mér hér. Ég er bara heppinn að fótboltinn hér sé að stækka á hverju einasta ári og ég hef séð hann stækka, bæði hjá landsliðinu og í deildinni. Eins og ég segi þá líður mér mjög vel hér og þetta land er bara frábært. Ég elska Ísland.“

Tímabilið er ekki búið hjá Pablo og félögum, en liðið er komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins. Pablo segir að það verði ekkert mál að koma sér af stað aftur þrátt fyrir allt sem fylgir því að vinna Íslandsmeistaratitilinn.

„Nei, þetta er alls ekki erfitt. Það er vonandi titill í boði og við viljum hann. Víkingur er ríkjandi bikarmeistari og við viljum halda því. Þetta er allt annað mót og Vestri er að spila sinn stærsta leik kannski í sögunni og þeir vilja þetta líka. Við verðum bara að sýna af hverju við erum Íslandsmeistarar.“

Viðtalið við Pablo má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.