Fótbolti

Jafnteflið gegn Val var vendipunkturinn á tímabilinu

Andri Már Eggertsson skrifar
Arnar Gunnlaugsson var afar glaður eftir leik
Arnar Gunnlaugsson var afar glaður eftir leik Vísir/Hulda Margrét

Víkingur Reykjavík vann Leikni 2-0. Sigurinn tryggði þeim Íslandsmeistaratitilinn og var Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, afar glaður í leiks lok.

„Það er ótrúlegt hvað við höfum afrekað á þessum þremur árum. Það er ekki bara hvað við höfum gert sem einstaklingar heldur höfum við fengið alla með okkur í lið. Mér finnst eins og allir landsmenn séu á okkar bandi.“ 

„Þetta sýnir okkur hvað fótbolti er frábær íþrótt þegar þú spilar hana rétt. Ég er ekki að tala um hvað maður gefur margar sendingar í leik. Ég er að tala um þegar maður leggur líf og sál í verkefnið,“ sagði Arnar Gunnlaugsson eftir leik.

Eftir að Víkingur gerði jafntefli gegn Val 1-1 fór Arnar að trúa því að þetta gæti verið árið sem Víkingur yrði Íslandsmeistari.

„Mér fannst Vals leikurinn á Origo vellinum bera þess merki. Við jöfnuðum leikinn á síðustu mínútu. Hefði það ekki tekist hefði Valur verið með stærra forskot á okkur.“ 

„Það er erfitt að vinna þessi stóru lið og þegar við náðum stig á móti Val, fannst mér eins og það gæti eitthvað gerst.“

 

Víkingur gerði fyrsta markið í dag og var það afar mikilvægt að mati Arnars til að róa taugarnar.

„Fyrsta markið róaði alla niður. Mér fannst fyrri hálfleikurinn stórkostlegur,“ sagði Arnar að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×