Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Fylkir 5-0 | Fimm stjörnu sigur ÍBV gegn botnliði Fylkis

Einar Kárason skrifar
Eyjastúlkur höfðu góða ástæðu til að fagna eftir leik í dag.
Eyjastúlkur höfðu góða ástæðu til að fagna eftir leik í dag. Vísir/Bára Dröfn

ÍBV hefur nú þegar bjargað sér frá falli á meðan Fylkir mun spila í Lengjudeildinni sumarið 2022. Það er því lítið annað en stoltið undir í leik kvöldsins.

Leikurinn fór rólega af stað á blautum Hásteinsvelli en eftir um 20 mínútna leik stigu Eyjastúlkur bensíngjöfina í botn. Eftir að nokkur góð færi höfðu farið forgörðum kom Viktorija Zaicikova ÍBV yfir með frábæru marki. Viktorija fékk boltann fyrir utan teig og setti boltann yfir Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Fylkis og í hornið fjær. Ísinn brotinn og grunaði flesta að þetta yrði ekki eina mark leiksins. Það reyndist rétt því skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks skoraði Viktorija sitt annað mark þegar hún skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Liönu Hinds, sem átti virkilega góðan dag hægra megin hjá ÍBV. 

Staðan orðin 2-0 og ljóst að framundan væru erfiðar 45 mínútur fyrir botnlið gestanna.

Eyjastúlkur hófu síðari hálfleikinn eins og þær höfðu endað þann fyrri en þrátt fyrir mörg góð tækifæri náðu þær ekki að koma boltanum í netið. Það átti þó eftir að breytast þegar Olga Sevcova skoraði af stuttu færi eftir snarpa sókn heimaliðsins. Einungis þremur mínútum síðar fullkomnaði Viktorija þrennu sína þegar hún fékk sendingu í gegnum vörn Fylkis, fór framhjá Tinnu og skoraði úr þröngu færi. Staðan 4-0 og rúmlega stundarfjórðungur eftir. Olga skoraði svo sitt annað, og fimmta mark ÍBV, þegar hún kom boltanum í netið eftir enn eina sóknina upp hægri kantinn. 

Lítið gerðist eftir það og sannfærandi sigur Eyjaliðsins í höfn. 

Af hverju vann ÍBV?

Eyjastelpur mættu í leikinn af mikilli hörku sýndu sigurvilja þrátt fyrir að ekkert væri undir annað en stoltið og möguleiki á að hækka sig um eitt sæti í deildinni. Þær sýndu á köflum hversu vel spilandi liðið er þegar það er í þeim gír. Fylkir var fallið fyrir leik dagsins og hafa greinilega átt erfitt með að gíra sig upp í 90 mínútur í kvöld. Eftir að fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós var ljóst að stigin yrðu eftir í Vestmannaeyjum en gestirnir sköpuðu sér afar fá marktækifæri.

Hverjar stóðu upp úr?

Það er rosalega erfitt að taka einhverjar sérstaklega út úr í liði ÍBV. Það verður þó að minnast á markaskorara dagins, Viktoriju og Olgu, sem voru frábærar fyrir framan markið. Hinar níu geta einnig punktað nafn sitt í þennan dálk.

Hvað gekk illa? 

Gestirnir áttu erfiðan dag í dag. Það var þung yfir þeim og einu marktækifæri þeirra voru skot fyrir utan teig.

Hvað gerist næst?

Bæði lið fá góða hvíld áður en undirbúningur fyrir sumarið 2022 hefst. ÍBV mun þá halda áfram leik í deild þeirra bestu á meðan Fylkir spilar í Lengjudeildinni.

Ian Jeffs: Ekki hægt að biðja um meira

Ian Jeffs heldur ekki áfram með ÍBV.vísir/daníel

,,Ég er bara glaður. Þetta var góður leikur hjá okkur í dag," sagði Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, eftir sigurinn. ,,Við vildum klára þetta mót vel. Stundum er erfitt að ná upp stemmningu fyrir svona leik þar sem ekkert er undir en við sýndum frábæra liðsheild til að klára þetta á réttan hátt. Við skorum fimm mörk og höldum hreinu í fyrsta skipti á tímabilinu, sem gleður mig mjög mikið."

,,Leikmenn voru til fyrirmyndar í dag. Þær vildu þennan sigur og sögðu fyrir leik að þær vildu nýta þetta tækifæri til að enda tímabilið vel, ná í þrjú stig og halda hreinu. Það tókst í dag."

Ian Jeffs tilkynnti fréttamanni að hann myndi ekki halda áfram með liðið eftir tímabilið. Sigurinn í kvöld því ágætis kveðjugjöf.

,,Ég verð ekki áfram með liðið. Það er 100%. Ég sagði það þegar ég tók við að þetta væri bara tímabundið og að þetta væri besta lausnin út þetta tímabil. Ég veit að félagið er að reyna að réttan einstakling í starfið."

,,Við skorum fimm mörk. Það er ekki hægt að biðja um meira. Við höldum hreinu og spilum flottan leik. Ég er mjög stoltur af liðinu í dag."

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.