Enski boltinn

Skelfingar lands­leikja­hlé Totten­ham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Steven Bergwijn haltraði af velli í sigri Hollands á Tyrklandi. Hann er einn af sex leikmönnum sem gætu verið fjarverandi er Tottenham Hotspur mætir Crystal Palace um helgina.
Steven Bergwijn haltraði af velli í sigri Hollands á Tyrklandi. Hann er einn af sex leikmönnum sem gætu verið fjarverandi er Tottenham Hotspur mætir Crystal Palace um helgina. ANP Sport/Getty Images

Það gæti þó reynst þrautin þyngri að fullmanna leikmannahóp Tottenham Hotspur gegn Crystal Palace er enska úrvalsdeildin hefst á nýjan leik eftir landsleikjahlé um næstu helgi.

Tottenham hefur farið vel af stað í ensku úrvalsdeildinni og er með fullt hús stiga að loknum þremur leikjum. Allir leikirnir hafa unnist 1-0 og á liðið enn eftir að fá á sig mark. Það er spurning hvort það breytist nú um helgina en liðið verður að öllum líkindum án sex leikmanna í leiknum gegn Palace.

Alls hafa fjórir leikmenn liðsins orðið fyrir meiðslum í landsleikjahléinu og þá voru tveir leikmenn liðsins hluti af ævintýri Argentínumanna í Brasilíu eins og Vísir hefur nú þegar greint frá.

Giovani Lo Celso og Cristian Romero voru báðir í byrjunarliði Argentínu er liðið mætti Brasilíu í Brasilíu. Tottenham Hotspur hafði beðið þá sérstaklega um að halda kyrru fyrir á Englandi þar sem ljóst var að þeir þyrftu að fara í sóttkví við heimkomuna. Það gerður þeir ekki og ætlar enska félagið sér að sekta leikmennina.

Ryan Sessegnon og Oliver Skipp voru báðir valdir í U-21 árs landslið Englands. Sessegnon tókst að meiðast á æfingu á meðan Skipp meiddist í 2-1 sigri liðsins á Kósovó. Suður-Kóreumaðurinn Heng-Min Son meiddist á æfingu á mánudaginn og þá fór Steven Bergwijn haltrandi af velli í 6-1 sigri Hollands á Tyrklandi.

Stuðningsfólk Tottenham krossar nú eflaust fingur í þeirri von um að enginn slasist í þeim landsleikjum sem eftir eru í þessum glugga. Harry Kane verður eflaust í byrjunarliði Englands gegn Póllands og miðað við meiðslasögu hans er líklegt að annar ökklinn verði bólginn að leik loknum.

Leikur Póllands og Englands er í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport 2 í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 18.45 en útsending tíu mínútum fyrr eða klukkan 18.35.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.