Enski boltinn

West Ham og Everton á toppnum | Dramatík í Newcastle

Valur Páll Eiríksson skrifar
Everton hefur farið vel af stað á leiktíðinni.
Everton hefur farið vel af stað á leiktíðinni. Charlotte Wilson/Offside/Offside via Getty Images

Fimm leikir fóru fram um miðjan dag í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Everton byrjar vel undir stjórn Spánverjans Rafaels Benítez en liðið er jafnt West Ham United að stigum á toppi deildarinnar eftir að Hömrunum mistókst að vinna sinn þriðja leik í röð.

West Ham hefur verið á miklu skriði í upphafi móts en liðið vann 4-2 sigur á Newcastle og 4-1 á Leicester City fyrir leik dagsins.

Spánverjinn Pablo Fornals kom West Ham í forystu á 39. mínútu eftir stoðsendingu Michails Antonio. 1-0 stóð í hléi en Conor Gallagher jafnaði fyrir Crystal Palace á 58. mínútu. Tíu mínútum síðar, á 68. mínútu, kom Antonio West Ham í forystu á ný en Gallagher jafnaði öðru sinni aðeins tveimur mínútum síðar.

Þar við sat og 2-2 jafntefli úrslit leiksins. Crystal Palace leitar síns fyrsta sigurs en er með tvö stig eftir þrjá leiki. West Ham er með sjö stig á toppi deildarinnar, fyrir ofan Everton vegna betri markatölu.

Everton fór að hlið West Ham á toppnum með 2-0 útisigri á Brighton á Amex-vellinum á suðurströnd Englands. Demarai Gray skoraði fyrra mark liðsins eftir laglegan sprett í fyrri hálfleiknum og Dominic Calvert-Lewin tryggði 2-0 sigurinn úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik. Það gerði hann í óþökk liðsfélaga síns Richarlison sem var æfur yfir því að fá ekki að taka spyrnuna.

Í Birmingham gerðu Aston Villa og Brentford 1-1 jafntefli. Ivan Toney skoraði sitt fyrsta mark í úrvalsdeildinni er hann kom Brentford yfir á sjöundu mínútu leiksins en Argentínumaðurinn Emiliano Buendía jafnaði fyrir Aston Villa á 13. mínútu með sínu fyrsta marki fyrir félagið eftir skiptin frá Norwich í sumar.

Brentford hefur enn ekki tapað leik og er með fimm stig en Aston Villa er með fjögur.

Niðurbrotnir Newcastle-menn og Norwich enn stigalaust

Mikil dramatík var í norðurhluta landsins þar sem Newcastle United tók á móti Southampton. Callum Wilson kom Newcastle yfir en Norðmaðurinn Mohamed Elyounoussi jafnaði fyrir gestina stundarfjórðungi fyrir leikslok. Frakkinn Allan Saint-Maximin virtist vera að tryggja Newcastle sigur með marki í uppbótartíma en undir lok hans dæmdi Paul Tierney, dómari leiksins, vítaspyrnu vegna tæklingar Jamals Lascelles á Adam Armstrong eftir endurskoðun brotsins á myndbandsskjá. James Ward-Prowse steig á punktinn og skoraði til að tryggja Southampton stig. Newcastle fékk þar sitt fyrsta stig í deildinni en Southampton er með tvö stig.

Nýliðar Norwich eru enn án stiga í deildinni eftir 2-1 tap fyrir Leicester City á heimavelli. Jamie Vardy kom Leicester yfir snemma leiks með sínu fyrsta marki á útivelli í átta mánuði en Finninn Teemu Pukki jafnaði af vítapunktinum seint í fyrri hálfleik. Vardy lagði þá upp fyrir Marc Albrighton á 76. mínútu. Kenny McLean jafnaði fyrir Norwich skömmu síðar en það mark var dæmt af eftir endurskoðun myndbandsdómara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×