Enski boltinn

Segir Man Utd hafa bætt sig ár frá ári en verði að byrja betur í ár

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær vill sjá lið sitt byrja af krafti. Eitthvað sem vantaði í fyrra.
Ole Gunnar Solskjær vill sjá lið sitt byrja af krafti. Eitthvað sem vantaði í fyrra. EPA-EFE/Oli Scarff

Ole Gunnar Solskjær segir að lið sitt Manchester United þurfi að byrja betur í ár en á síðustu leiktíð ætli það sér að berjast um enska meistaratitilinn allt til enda.

Norðmaðurinn var í viðtali við TV2 í heimalandinu þar sem hann fór yfir komandi tímabil. Ræddi hann standið á Jadon Sancho ásamt því að fara yfir hvað lið hans þarf að bæta í ár til að eiga möguleika á þeim stóra.

„Hann fór í frí eftir Evrópumótið og hefur því miður verið aðeins veikur síðan hann skilaði sér heim. Hann hefur aðeins náð einni og hálfri æfingu með okkur svo hann hefur ekki æft mikið. Það mun taka tíma þangað til hann er kominn í form en hann mun reynast okkur einkar mikilvægur þegar líður á tímabilið,“ sagði Solskjær um Sancho.

„Við verðum að byrja mótið vel. Í fyrra enduðum við í 2. sæti og árið þar í 3. sæti svo við erum að taka framförum. Við verðum samt að vera upp á okkar besta frá fyrsta tímabilsins til þess síðasta. Við vorum þéttir frá 1. nóvember til 10. maí á síðustu leiktíð þar sem við töpuðum aðeins einum leik. Við verðum að endurtaka það ef við ætlum að vera berjast um titla í mars, apríl og maí,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man United, um tímabilið sem hefst í kvöld með leik nýliða Brentford og Arsenal.

Manchester United tekur á móti Leeds United á Old Trafford í viðureign þar sem Man Utd skoraði sex mörk síðast. Ole Gunnar væri mjög svo til í endurtekningu á þeim leik og byrja tímabilið með flugeldasýningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×