Erlent

Stærsti eldurinn í sögu Kaliforníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Dixie-eldurinn hefur brennt minnst 1.813 ferkílómetra svæði í Kaliforníu. Alls loga 107 gróðureldar í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna.
Dixie-eldurinn hefur brennt minnst 1.813 ferkílómetra svæði í Kaliforníu. Alls loga 107 gróðureldar í fjórtán ríkjum Bandaríkjanna. AP/Noah Berger

Dixie-eldurinn svokallaði, sem valdið hefur gífurlegu tjóni í Kaliforníu er orðinn stærsti staki gróðureldur í skráðri sögu ríkisins. Gróðureldurinn hefur logað í 23 daga en köld nótt virðist hafa hægt á útbreiðslu hans.

Eldurinn hefur brennt minnst 1.813 ferkílómetra svæði en samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar telja slökkviliðsmenn sig einungis hafa stjórn á rétt rúmum fimmtungi hans.

Fjögurra er saknað á svæðinu sem eldurinn hefur farið yfir.

Talið er að Dixie-eldurinn hafi kviknað þegar tré féll á raflínur en það hefur ekki verið staðfest. Hann kviknaði nokkrum kílómetrum frá upphafsstað Camp-eldsins svokallaða sem kviknaði árið 2018. Sá eldur er sá mannskæðasti sem kviknað hefur í Kaliforníu og sá eldur sem olli mestu tjóni, samkvæmt frétt Politico.

Sjá einnig: Mun fleiri saknað en áður var talið

Dixie eldurinn brenndi bæinn Greenville til kaldra kola í vikunni. Þar brunnu minnst 370 heimili og aðrar byggingar og eldurinn ógnar um fjórtán þúsund byggingum til viðbótar.

AP segir eldtímabil ársins stefna í að verða verra en tímabilið í fyrra, sem var það versta í skráðri sögu Kaliforníu. Í Bandaríkjunum brenna nú 107 gróðureldar í fjórtán ríkjum.

Þurrkar, hitabylgjur og veðurfarsbreytingar af mannavöldum hafa gert gróðurelda erfiðari viðeignar í Bandaríkjunum og víðar. Vísindamenn segja að vesturhluti Bandaríkjanna hafi orðið hlýrri og þurrari á síðustu áratugum og það geri öfgar í veðurfari algengari og gróðurelda stærri og umfangsmeiri.

Gavin Newsom, ríkisstjóri Kaliforníu, heimsótti rústir Greenville í dag.


Tengdar fréttir

„Hvert eigum við að fara?“

Þúsundum íbúa og ferðamanna í grennd við Aþenu, höfuðborg Grikklands, hefur verið skipað að yfirgefa heimili sín og dvalarstaði vegna mikilla gróðureldra sem þar geisa.

Telja hring­rás í At­lants­hafi ó­stöðuga vegna hnatt­rænnar hlýnunar

Vísbendingar eru um að lykilhringrás sjávar í Atlantshafinu hafi hægt á sér og ekki er loku fyrir það skotið að hún gæti stöðvast alveg haldi hnattræn hlýnun áfram að raska jafnvægi hafsins. Það hefði gríðarlega áhrif á veðurfar víða um heim, þar á meðal á Íslandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×