Enski boltinn

Stjóri Chelsea gæti spilað einum framherja sínum meira í vörninni í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Tuchel fagnar sigri í Meistaradeildinni með Christian Pulisic.
Thomas Tuchel fagnar sigri í Meistaradeildinni með Christian Pulisic. EPA-EFE/Manu Fernandez / POOL

Thomas Tuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, segir að bandaríski framherjinn Christian Pulisic sé opinn fyrir því að færa sig mun aftar á völlinn á þessu tímabili.

Hinn 22 ára gamli Christian Pulisic er vanur því að spila á hægri kanti eða í flestum stöðum fremst á vellinum.

Pulisic spilaði hins vegar mun aftar á vellinum í æfingaleik á móti Arsenal um helgina.

Tuchel talaði um það eftir leikinn að hann hefði fengið góð viðbrögð við því að Pulisic myndi spila meira sem hægri bakvörður á komandi tímabili.

Pulisic var í byrjunarliðinu á móti Arsenal í þessari stöðu vængbakvarðar og spilaði fyrstu 64 mínúturnar áður en hann fór af velli fyrir Ross Barkley. Chelsea vann leikinn 2-1.

Eftir leikinn var Tuchel spurður út í þessa breytingu.

„Kannski, kannski. Hann spilaði hjá mér hjá Dortmund og þá spilaði hann margoft þessa stöðu,“ sagði Thomas Tuchel.

„Í sambandi við Callum [Hudson-Odoi] þá gat Marcos [Alonso] ekki spilað og því settum við Cally vinstra megin. Mig hefur langað að skoða það í langan tíma því Callum getur verið hættulegri í sóknarleiknum í þeirri stöðu. Hann elskar það og sýndi það í þessum leik,“ sagði Tuchel.

„Vanalega þá erum við með Azpi [Cesar Azpilicueta] og Reece [James] í stöðunni hægra megin en þeir voru ekki með í dag. Azpi byrjaði að æfa fyrir tveimur dögum og Reece er ekki byrjaður. Við verðum að vera klárir með lausnir því okkar fyrsti leikur er 11. ágúst á móti Villarreal og svo byrjar tímabilið 14. ágúst. Við getum ekki verið mikið að prófa hluti. Við gátum því látið hann fá mínútur í þessari stöðu,“ sagði Tuchel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×