Enski boltinn

Kane skrópaði á æfingu Tottenham í morgun

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Hefur Kane leikið sinn síðasta leik í Tottenham treyju?
Hefur Kane leikið sinn síðasta leik í Tottenham treyju? Oli Scarff/Getty

Harry Kane virðist ætla að gera allt sem í sínu valdi stendur til að komast burt frá enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham í sumar.

Enski markahrókurinn átti að snúa aftur til æfinga í morgun eftir stutt frí sem hann fékk vegna þátttöku Englands á EM í sumar.

Enskir fjölmiðlar fylgdust því vel með á æfingasvæði Tottenham í morgun enda hefur Kane verið orðaður við brottför frá Tottenham undanfarnar vikur en forsvarsmenn félagsins vilja alls ekki selja kappann.

Kane var hvergi sjáanlegur og samkvæmt fréttastofu SkySports á fjarvera Kane sér ekki eðlilegar skýringar heldur hafi hann einfaldlega skrópað.

Virðist Kane ætla að beita forráðamenn Tottenham þrýsting um að komast í burt en enskir fjölmiðlar greina einnig frá því að Kane telji sig hafa gert heiðursmannasamkomulag við Daniel Levy, stjórnarformann Tottenham, síðasta sumar um að hann fengi að fara frá félaginu nú í sumar.

Kane, sem er 28 ára gamall, er samningsbundinn Tottenham til ársins 2024.

Hann er næstmarkahæsti leikmaður félagsins frá stofnun þess; hefur skorað 221 mark í 336 leikjum en á tíma Kane hjá félaginu hefur enginn meistaratitill unnist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×