Erlent

Kínverjar sagðir byggja fjölda byrgja fyrir langdrægar eldflaugar

Samúel Karl Ólason skrifar
Maður gengur framhjá Dongfeng 2 eldflaug fyrir utan hersafnið í Peking.
Maður gengur framhjá Dongfeng 2 eldflaug fyrir utan hersafnið í Peking. EPA/ADRIAN BRADSHAW

Kínverjar eru sagðir vera að byggja allt að 119 eldflaugabyrgi í eyðimörk í vesturhluta landsins. Byrgi þessi gætu hýst langdrægar eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn.

Þetta segja sérfræðingar sem hafa skoðað gervihnattamyndir af eyðimörkinni nærri borginni Yumen í Gansu-héraði. Myndirnar sýna 119 framkvæmdastaði sem þykja mjög líkir þekktum eldflaugabyrgjum í Kína sem notuð eru fyrir langdrægar eldflaugar sem geta borið kjarnorkuvopn.

Þetta kemur fram í frétt Washington Post þar sem segir að reynist grunur áðurnefndra sérfræðinga réttur, sé um miklar vendingar að ræða þar sem Kínverjar eru taldir eiga einungis á milli 250 til 350 kjarnorkuvopn.

Til samanburðar þá eiga Bandaríkjamenn og Rússar samanlagt rúmlega ellefu þúsund kjarnorkuvopn.

Þá er tekið fram í fréttinni að ráðamenn í Kína hafi áður reist gervi-eldflaugabyrgi og mögulega gætu eldflaugar verið færðar á milli byrgja svo ekki væri hægt að vita með vissu hvar þær væru.

Alls 145 byrgi sem vitað er um

Jeffrey Lewis, einn viðmælandi WP, sem er sérfræðingur um kjarnorkuvopn Kína, segir að með þessum nýju byrgjum sé vitað um alls 145 slík í Kína. Reynist þessar fregnir réttar fæli það í sér umtalsverða aukningu í umfangi kjarnorkuvopna Kína eða í það minnsta að ráðamenn í Kína vilji leggja meiri áherslu á kjarnorkuvopn sín.

Ráðamenn í Kína hafa sagt kjarnorkuvopn þeirra ekki nægilega alvarlega ógn, samanborið við vopn Bandaríkjanna og Rússlands.

Lewis segir að hann og aðrir samstarfsmenn sínir telji markmið ráðamanna í Kína vera að stækka umfang kjarnorkuvopna sína til að hluta til með því markmiði að tryggja að þeir gætu svarað mögulegri skyndi-kjarnorkuárás Bandaríkjanna.

Líklegast væri að byrgin myndu hýsa langdrægar eldflaugar sem kallast Dongfeng-41. Þær voru fyrst sýndar í skrúðgöngu árið 2019 og geta borið mörg kjarnorkuvopn. Þá eru þær taldar vera meðal langdrægustu eldflauga heimsins.

Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa haldið því fram að undanförnu að hröð framþróun hafi orðið á kjarnorkuvopnum Kína. Kínverjar væru bæði að fjölga langdrægum eldflaugum og smærri færanlegum eldflaugum. Þar að auki hefðu Kínverjar tekið nýja kafbáta sem geta borið kjarnorkuvopn í notkun.

Mikil spenna hefur verið milli Bandaríkjanna og Kína undanfarin misseri.

Sjá einnig: Segja Bandaríkjunum að hætta að leika sér að eldi

Í Bandaríkjunum hafa hernaðaryfirvöld tilkynnt nútímavæðingu kjarnorkuvopna og eldflaugavarna. Á næstu tveimur áratugum stendur meðal annars til að fjölga eldflaugum sem geti borið kjarnorkuvopn og sömuleiðis þróa ný kjarnorkuvopn.

Svipaða sögu er að segja frá Rússlandi þar sem ráðamenn hafa sömuleiðis heitið því að uppfæra vopnabúr sín. Það sama á við Indland og Frakkland.


Tengdar fréttir

Taívan býr sig undir átök við Kína

Joseph Wu, utanríkisráðherra Taívan, segir stjórnvöld þurfa að undirbúa sig undir möguleg hernaðarátök. Þetta sagði hann í viðtali við CNN en fyrir um viku síðan flugu 28 kínverskar herþotur og sprengjuflugvélar inn í lofthelgi landsins.

Segja Kínverja hafa skapað „dystópískt helvíti“ í Xinjiang

Mannréttindasamtökin Amnesty International saka kínversk stjórnvöld um glæpi gegn mannkyninu með meðferð sinni á úígúrum í Xinjiang-héraði. Framkvæmdastjóri samtakanna segir kommúnistastjórnina hafa skapað „dystópískt helvíti af gífurlegri stærðargráðu“.

Sagði lýðræðið þurfa að sanna sig

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, lagði línurnar í nótt að umfangsmiklum breytum á velferðarkerfi Bandaríkjanna og umsvifum alríkisins á hagkerfið. Þetta sagði hann í fyrsta ávarpi sínu fyrir báðum deildum Bandaríkjaþings í nótt.

Selunum sigað á Kína og Rússland

Yfirmenn herafla Bandaríkjanna hafa ákveðið að gera töluverðar breytingar á einhverjum frægust herdeildum sérsveitarmanna í heiminum. Með breytingunum eiga svokallaðir Selir að leggja minni áherslu á stríðið gegn hryðjuverkum og meiri áherslu á átök milli ríkja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×