Erlent

Segir Evrópu ekki geta setið hjá í vígbúnaðarkapphlaupi

Samúel Karl Ólason skrifar
Emmanuel Macron, forseti Frakklands.
Emmanuel Macron, forseti Frakklands. AP/Francois Mori

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, segir að ríki Evrópu megi ekki sitja hjá í nýju vígbúnaðarkapphlaupi. Nauðsynlegt sé að leggja línurnar innan Evrópu og þá sérstaklega varðandi kjarnorkuvopn. Eftir úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er Frakkland eina kjarnorkuveldi sambandsins.

Þetta sagði forsetinn í ræðu við unga foringja í franska hernum við athöfn í París í morgun.

Árið 2018 samþykkti Macron kostnaðarsama uppfærslu á kjarnorkuvopnum Frakklands en á móti kemur að Frakkar hafa fækkað vopnum sínum á undanförnum árum.

Eins og bent er á í frétt Deutsche Welle þá Bandaríkin og Rússland slitið sáttmálum á milli ríkjanna um kjarnorkuvopn og yfirvöld Bandaríkjanna hafa þar að auki gefið í skyn að þau muni ekki framlengja sáttmála um fækkun kjarnorkuvopna sem undirritaður var árið 2010.

Bandaríkin, Rússlands, Kína og Indland eru meðal ríkja heimsins sem vinna að þróun nýrra gerða eldflauga og annars konar vopna.

Í ræðu sinni sagði Macron að hægt væri að tryggja öryggi Evrópu í samvinnu við Bandaríkin. Kjarnorkuvopn Frakklands tryggðu þó einnig öryggi. Forsetinn vill ræða hlutverk kjarnorkuvopna Frakklands við bandamenn ríkisins í Evrópu. Macron neitaði nýverið að færa kjarnorkuvopn ríkisins undir stjórn ESB eða Atlantshafsbandalagsins.

Ræða Macron er í takt við fyrri ummæli hans um aukið varnarsamstarf innan Evrópu og heimsálfan hætti að reiða sig eins mikið á Bandaríkin og raunin er í varnarmálum. Hann hvatti ríki Evrópusambandins til að verja meira fé til varnarmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×