Erlent

Segja Kínverja hafa skapað „dystópískt helvíti“ í Xinjiang

Kjartan Kjartansson skrifar
Kona mótmælir meðferð Kínverja á Úígúrum í Tyrklandi. Kínversk stjórnvöld hafa verið sökuð um þjóðarmorð á þjóðernisminnihlutum í Xinjiang-héraði.
Kona mótmælir meðferð Kínverja á Úígúrum í Tyrklandi. Kínversk stjórnvöld hafa verið sökuð um þjóðarmorð á þjóðernisminnihlutum í Xinjiang-héraði. Vísir/EPA

Mannréttindasamtökin Amnesty International saka kínversk stjórnvöld um glæpi gegn mannkyninu með meðferð sinni á úígúrum í Xinjiang-héraði. Framkvæmdastjóri samtakanna segir kommúnistastjórnina hafa skapað „dystópískt helvíti af gífurlegri stærðargráðu“.

Sérfræðingar telja að kínversk stjórnvöld hafi tekið allt að milljón úígúra og aðra minnihlutahópa sem eru íslamstrúar höndum í Xinjiang. Hundruð þúsunda manna hafi verið komið fyrir í fangabúðum þar sem þeir eru sagðir beittir líkamlegum og andlegum pyntingum.

Kínversk stjórnvöld hafa hafnað því að mannréttindabrot eigi sér stað í Xinjiang og hafa talað um búðirnar sem einhvers konar endurmenntunarbúðir sem eigi að koma í veg fyrir að fólk snúist til öfgahyggju. Það sé liður í baráttu gegn hryðjuverkum í Xinjiang.

Í skýrslu sem Amnesty International birti í dag hvetja samtökin Sameinuðu þjóðirnar til þess að rannsaka meint brot Kínastjórnar gegn úígúrum, Kasökkum og öðrum þjóðernishópum sem eru múslimatrúar, þar á meðal handtökur, eftirlit og pyntingar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

„Það ætti að slá samvisku mannkynsins að gríðarlegur fjöldi fólks hafi verið látinn sæta heilaþvætti, pyntingum og annarri niðurlægjandi meðferð í einangrunarbúðum á meðan milljónir til viðbótar búa við ótta í umfangsmiklu eftirlitssamfélagi,“ sagði Agnes Callamard, framkvæmdastjóri Amnesty International.

Ásakanir hafa verið uppi um að í Xianjang hafi kínversk stjórnvöld gert ófrjósemisaðgerðir gegn vilja fólks, þungunarrof og ofsótt trúarleiðtoga til þess að uppræta trúar- og menningarhefðir úígúra. Þá hafa stjórnvöld gagngert flutt inn fólk af Han-ætt, fjölmennta þjóðarbrotinu í Kína, í Xinjiang til þess að gera heimamenn að minnihlutahópi þar.

Amnesty telur að fangar í búðunum sæti stanslausri innrætingarherferð auk þess sem þeir séu misnotaðir andlega og líkamlega. Skýrsla samtakanna byggir á viðtölum við á sjötta tug fyrrverandi fanga sem lýsa meðal annars hvernig þeir voru barðir, gefin rafstuð, sviptir svefni, hengdir upp á vegg, fjötraðir niður og látnir dúsa í kulda og einangrun svo eitthvað sé nefnt.


Tengdar fréttir

Sakar Kín­verja um þjóðar­morð daginn fyrir stjórnar­skiptin

Mike Pompeo, fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Kína hafa framið þjóðarmorð með aðgerðum sínum gegn Úígúrum og öðrum þjóðarbrotum múslima í Kína. Anthony Blinken, verðandi utanríkisráðherra, kveðst sammála þeirri staðhæfingu.

Segja Úígúra útskrifaða úr fangabúðum

Yfirvöld Kína segja flesta Úígúra hafa „útskrifast“ úr fanga- og endurmenntunarbúðum í Xinjiang-héraði í Kína. Þar að auki verði framtíðar nemendum, eins og Shohrat Zakir, ríkisstjóri héraðsins, orðaði það, leyft að koma og fara að vild.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×