Umfjöllun og viðtöl: Þór/KA - Fylkir 0-0 | Markalaust fyrir norðan

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
Úr leik hjá Þór/KA fyrr í sumar.
Úr leik hjá Þór/KA fyrr í sumar. vísir/hulda margrét

Umfjöllun og viðtöl

Þór/KA og Fylkir skildu jöfn 0-0 á SaltPay vellinum á Akureyri í dag í Pepsí Max deild kvenna. Liðin voru fyrir leikinn í 8. og 9. sæti deildarinnar og því stigin þrjú vel þegin báðum meginn. Deildin jöfn og spennandi og stutt upp töfluna.

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill, vindurinn sem var þó nokkur hafði sín áhrif á leikinn. Mikið jafnræði var með liðunum og helst til baráttan út á vellinum sé til umræðu. Það var ekkert um opinn færi í fyrri hálfleiknum, báðar varnir héldu vel og liðin með fáar lausnir við því. Það voru þá helst til langskot sem markverðir liðanna þurftu að hafa áhyggjur af. Staðan í hálfleik 0-0.

Heimakonur komu grimmari til leiks í seinni hálfleik, með þægilegan vind í bakið sem þær notfærðu sér. Þær áttu nokkrar hættulegar sóknir en náðu þó ekki að binda endahnútinn. Colleen Kennedy kom inn á sem varamaður í liði Þór/KA og átti gott skot að marki á 74. mínútu sem Tinna Brá varði vel í marki Fylkis. Á 89. mínútu fékk Þór/KA sitt fimmta horn í seinni hálfleik sem Karen María tók. Hornspyrnan beint á kollinn á Örnu Sif sem skallaði í slánna.

Ekkert mark var því skorað og fá hvort lið um sig eitt stig sem gerir ekki mikið fyrir þau í deildinni. Þór/KA er áfram í fallsæti og Fylkir sæti fyrir ofan með stigi meira.

Afhverju jafntefli? 


Jafntefli var nokkuð sanngjörn niðurstaða í fremur tíðindalausum leik. Liðin voru ekki að skapa mikið. Þór/KA með betri færi í seinni hálfleik og hefðu mögulega geta stolið stigunum þremur.

Hverjar stóðu upp úr? 


Varnarlínur beggja liða voru góðar í dag. Það var eins og áður sagt mjög lítið um færi í leiknum. Flest skot leiksins voru langskot utan af velli sem fóru yfir mörkin. Markmennirnir höfðu því ekki mikið að gera meirihluta leiksins þökk sé varnarlínum.

Hvað gekk illa? 


Það gekk illa hjá báðum liðum að skapa færi. Þór/KA konur áttu á tímabili í fyrri hálfleik í stökustu vandræðum með að tengja sendingar. Það lagaðist svo í seinni hálfleik. Fylkir komst lítið fram fyrir miðju í seinni hálfleik og Þór/KA var líklegra til að skora í þeim síðari. 
Það er spurning hvort vindurinn hafi spilað eitthvað inn í hjá báðum liðum í sitthvorum hálfleiknum.

Hvað gerist næst?

Bæði lið þurfa nauðsynlega á þremur stigum að halda í næsta leik. Þór/KA mætir Keflavík á útivelli og Fylkir fær ÍBV í heimsókn.

Kjartan Stefánsson: Lykilatriði að tapa ekki fyrir Þór/KA

„Það er svekkjandi að gera jafntefli. Leikurinn bauð ekki upp á mikið. Boltinn var mikið í loftinu og útaf. Samt sem áður geggjað veður og kannski aðstæður til að gera betur en við gerðum það ekki,“ sagði Kjartan Stefánsson þjálfari Fylkir eftir 0-0 jafntefli á móti Þór/KA á Akureyi í dag.

„Þór/KA voru mjög þéttar og lokuðu öllum okkar möguleikum. Við reyndum en náðum ekki að ógna andstæðningum nógu mikið en við vorum duglega og börðumst. Þetta var kannski í takt við vindinn sem var hérna, hann var samt ekkert svakalegur en völlurinn var ekkert að hjálpa okkur heldur. Hitinn var sömuleiðis ekki að hjálpa okkur. Við vorum að gantast með það að við hefðum þurft að koma fyrr til að aðlagast hitanum.“

Kjartan hefði þegið þrjú stigin í dag en taldi lykilatriði að tapa ekki fyrir liðin sem er fyrir neðan þau í deildinni

„Það var lykilatriði að tapa ekki á móti Þór/KA og það tókst þó allavega það. Við erum þá allavega einu stigi fyrir ofan en hefðum þegið þrjú. Þetta var bara jafn leikur og þessi niðurstaða sanngjörn miða við hvernig hann spilaðist.“

„Við hefðum þurft að vera rólegri á boltann. Við vorum að sparka honum alltof mikið frá okkur og bara í svæði þar sem enginn var. Kannski fullmikill loftbolti og á grasinu skoppaði hann. Við hefðum þurft að halda betur í boltann þegar við vorum með hann og kannski aðeins meiri þolinmæði.“

Fylkir er í 8. sæti deildarinnar en var spáð því þriðja.

„Það er svekkelsi að vera svona neðanlega. Við spáðum okkur auðvitað ekki í þriðja sæti en alltaf gaman þegar einhver hefur trú á manni. Við höfum ekki náð að standa undir því og höfum verið svolítið langt frá því. Það er bara eitthvað sem við verðum bara að taka á og vonandi skapast ró á þetta hjá okkur og svolítið jafnvægi.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira