Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Breiðablik 2-0 | Keflvíkingar slógu út Blika eftir framlengingu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Breiðablik - Keflavík Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ
Breiðablik - Keflavík Pepsi deild karla vetur 2021 fótbolti KSÍ Foto: Hulda Margrét Óladóttir/Hulda Margrét

Keflavík er komið í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Breiðablik í framlengdum leik í Keflavík í kvöld.

Bæði lið mættu með sjálfstraust til leiks eftir sigra í síðasta leik í deildinni. Leikurinn byrjaði ágætlega og fengu liðin ágætis færi til að skora í fyrri hálfleiknum.

Besta færi Blika var hálfgerð þrenna um miðjan hálfleikinn. Fyrst bjargaði Sindri Kristinn Ólafsson í marki Keflavíkur þegar hornspyrna Höskulds Gunnlaugssonar stefndi í netið, strax í kjölfarið skallaði Árni Vilhjálmsson í stöng og frákastið eftir stangarskotið endaði hjá Damir Muminovic en skot hans var varið á marklínu af varnarmanni.

Keflvíkingar skölluðu líka í tréverkið fyrir hlé en Adam Árni Róbertsson átti góðan skalla sem endaði í stönginni.

Í síðari hálfleik voru Blikar síðan meira með boltann en gekk ekki vel að skapa sér hættuleg færi. Bæði lið gerðu töluvert af breytingum auk þess sem stöðva þurfti leikinn í tvígang vegna meiðsla og takturinn í leiknum datt aðeins niður.

Eftir venjulegan leiktíma var staðan enn markalaus og grípa þurfti til framlengingar.

Framlengingin var í járnum og frekar augljóst að hvorugt liðið vildi tefla á tvær hættur. Blikar fengu aragrúa af hornspyrnum í leiknum, yfir tuttugu talsins, en nýttu þær ekki nærri því nógu vel.

Þegar komið var fram á 114. mínútu komust Keflvíkingar hins vegar yfir. Kian Williams komst þá á auðan sjó á vinstri kantinum. Hann fann Helga Þór Jónsson í teignum sem gat ekki annað en skorað af markteig.

Eftir þetta settu Blikar allt púður í að jafna. Þeir fengu þó engin færi en Keflvíkingar bættu hins vegar við marki. Það gerði Davíð Snær Jóhannsson eftir snarpa skyndisókn.

Lokatölur 2-0 og heimamenn fögnuðu gríðarlega í leikslok.

Af hverju vann Keflavík?

Þeir sýndu gríðarlega seiglu og mikla vinnusemi í þessum leik. Varnarleikur þeirra var þéttur og þó svo að Blikar hafi komist nálægt því að skora í einhver skipti hélt vörn heimamanna vel.

Skyndisóknir heimamanna voru oft á tíðum hættulegar og mörkin tvö komu einmitt eftir tvær slíkar sóknir.

Þessir stóðu upp úr:

Hjá Keflavík var markvörðurinn Sindri Kristinn Ólafsson frábær. Hann gerði vel í fjölmörgum hornspyrnum Blika og varði þar að auki vel í nokkur skipti. Fyrirliðinn Magnús Þór Magnússon var góður og varnarleikur liðsins í heild mjög góður.

Hjá Breiðablik var Sölvi Snær Guðbjargarson líflegur til að byrja með en hann týndist þegar líða tók á leikinn. Viktor Karl Einarsson var duglegur sem og Davíð Ingvarsson í vinstri bakverðinum.

Hvað gekk illa?

Blikar komust einhvern veginn ekki í nægilega góðan takt sóknarlega. Það vantaði upp á sendingar til að búa til almennileg færi og þá hefðu þeir getað nýtt hornspyrnur sínar betur, þó svo að einhverjar þeirra hafi vissulega skapað hættu.

Hvað gerist næst?

Keflavík verður í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins en Breiðablik er úr leik þetta árið.

Óskar Hrafn: Hver leikur hefur sitt líf

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks.Vísir/Hulda Margrét

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var vitaskuld svekktur eftir að hans menn í Breiðablik féllu úr leik í Mjólkurbikarnum eftir framlengdan leik í Keflavík í kvöld.

„Ég held við höfum ekki skapað okkur nægilega mikið af færum til að ógna þeim að einhverju ráði. Mér fannst við ekki ná takti og komumst einhvern veginn aldrei af stað,“ sagði Óskar Hrafn í samtali við Vísi eftir leik.

Breiðablik spilaði frábærlega í 4-0 sigri á FH á dögunum og bjuggust flestir við sigri þeirra hér í Keflavík í kvöld.

„Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því,“ sagði Óskar þegar hann var spurður um áhyggjur af því að liðið dytti svona niður á milli leikja.

„Hver leikur hefur sitt líf og við náðum ekki réttu orkustigi hér í kvöld. Keflvíkingarnir voru fínir og mér fannst við ekki gera nóg til að vinna þennan leik.“

Hann sagði sigra eins og þann gegn FH ekki gefa þeim neitt í öðrum leikjum.

„Ég sagði fyrir leik að við myndum ekki fá neitt fyrir FH-leikinn eða einhvern annan leik hér í kvöld. Ég hef engar sérstakar áhyggjur. Stundum ná lið sér ekki á strik, stundum eru menn ekki alveg nógu vel tengdir eða orkustigið ekki rétt. Mér fannst það vera þannig í dag.“

„Við vorum meira með boltann og hefðum alveg getað skorað en þeir hefðu líka getað skorað. Að lokum óska ég bara Keflvíkingum til hamingju með að vera komnir áfram.“

Sigurður Ragnar: Stórkostleg úrslit hjá strákunum

Sigurður Ragnar og Eysteinn Húni Hauksson en þeir eru þjálfarar Keflavíkurliðsins.Vísir / Hulda Margrét

„Þetta var frábært, ég er virkilega stoltur af strákunum. Við höldum hreinu og spilum frábæran varnarleik,“ sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari Keflavíkur eftir að hans menn tryggðu sig áfram í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins með sigri á Breiðablik.

„Við fengum gagnrýni á okkur fyrr í sumar fyrir að vera fá of mörg mörk á okkur. Við erum búnir að halda hreinu í þremur leikjum í röð og vinna alla þessa leiki. Það er gríðarlega sterkt að vinna Breiðablik sem er frábært lið. Þetta eru stórkostleg úrslit hjá strákunum.“

Þegar komið var fram í framlenginguna bjuggust margir við að orka Keflvíkinga væri á þrotum en þeir höfðu átt í fullu tré við vel mannað lið Blika í leiknum. Mörkin tvö komu á lokamínútum framlengingarinnar.

„Davíð Snær var mjög rólegur þarna þegar hann setti markið. Strákarnir lögðu rosalega mikið inn fyrir þessu. Við gáfum strákum tækifæri sem hafa verið að spila minna í sumar, byrjuðum þannig. Allir með tölu stóðu sig vel og við unnum þetta með öflugri og góðri liðsheild.“

Aðspurður um að þurfa að spila auka 30 mínútur nú þegar mikið álag er á leikmönnum sagði Sigurður Ragnar að það gæti mögulega hjálpað mönnum að vinna svona sigra.

„Þetta gæti unnið með okkur, að hafa komist áfram í keppninni og lagt gott lið að velli. Það eykur sjálfstraustið hjá strákunum í komandi verkefnum. Það er gaman að vera komnir áfram í bikarkeppninni.“

Frans Elvarsson, leikmaður Keflavíkur, sagði í viðtali eftir leik að Sindri frá Hornafirði væri óskamótherji ef Sindramenn kæmust áfram.

„Ég á ekkert draumalið þannig. Ég styð alveg Frans ef hann vill mæta þeim. Ég er til í hvaða lið sem er,“ sagði Sigurður Ragnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira