Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - ÍBV 3-0 | Upprúllun í Garðabænum

Dagbjört Lena Sigurðardóttir skrifar
Eyjakonur fengu skell í dag.
Eyjakonur fengu skell í dag. Vísir/Elín Björg

Stjarnan vann virkilega góðan 3-0 sigur á ÍBV í 7. umferð Pepsi Max deildarinnar.

Leikurinn byrjaði fremur rólega en eyjakonur léku meira með boltann fyrstu mínúturnar. Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir náði fyrsta færi leiksins á áttundu mínútu en Auður Scheving spilaði vel í markinu. Fyrsta færi ÍBV kom elleftu mínútu en náðu ekki að nýta það. Það var ekki nema þremur mínútum síðar sem Hildigunnur Ýr komst ein í gegnum vörn ÍBV og kom Stjörnunni yfir 1-0.

Stjörnukonur náðu að skapa sér töluvert fleiri færi eftir mark Hildigunnar Ýrar á meðan sjálfstraust Eyjakvenna fór minnkandi. ÍBV fóru að spila verr og áttu mikið af vonlausum sóknum. Lítið gerðist það sem eftir var af fyrri hálfleik og náðu hvorugt liðið að skapa sér færi. Stjarnan fór því með eins marka forystu inn í hálfleik.

Eyjakonur byrjuðu af hörku í seinni hálfleik og lék boltinn mun meira á vallarhelmingi Stjörnunnar. ÍBV náðu ágætum færum en aldrei fór boltinn í netið. Þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fá ÍBV vítaspyrnu eftir að Málfríður Erna Sigurðardóttir lenti í harkalegum árekstri við Delaney Baie Pridham. Í kjölfarið fékk Málfríður gult spjald og hressilegar blóðnasir og þurfti því að fara útaf til þess að fá aðhlynningu.

Delaney Baie Pridham tók vítið sjálf og skaut hún niðri í vinstra hornið. Birta Guðlausdóttir gerði sér lítið fyrir og varði vítið örugglega. Við það lifnuðu Stjörnukonur við og spiluðu nokkuð ágætan bolta eftir það. Bæði lið spiluðu þó ekki af fullum krafti í seinni hálfleik, annaðhvort fengu ekki eða nýttu ekki færi og spiluðu lélega á milli sín.

Á 69. mínútu komust Stjarnan í hraða sókn eftir fína marktilraun hjá ÍBV. Eyjakonur voru lengi að skila sér til baka sem varð til þess að Betsy Doon Hassett fékk stoðsendingu frá Jasmín Erlu Ingadóttur, inn á teig anstæðinganna, og skorar örugglega. Það liðu ekki nema rúmar fimm mínútur þar til Jasmín sendi aðra stoðsendingu inn í teig en í þetta skiptið var það Hildigunnur Ýr sem tók við henni og kom Stjörnunni örugglega í þriggja marka forystu.

Lítið var um að vera á vellinum það sem eftir var leiks en mátti sjá að leikmenn voru orðnir ansi þreyttir og pirraðir. Á 90. mínútu fékk Málfríður Erna að lýta rauða spjaldið eftir aðra áminninguna sína í leiknum. Það skipti þó litlu því aðeins nokkrum mínútum seinna var leikurinn flautaður af og Stjörnukonur fögnuðu innilega sínum fyrsta sigri á heimavelli.

Afhverju vann Stjarnan?

Stjarnan var töluvert þyrstari í sigur í dag. Þær spiluðu virkilega vel í fyrri hálfleik og voru heilt yfir mun ákveðnari í leiknum. Þær náðu að skapa sér mörg góð færi, unnu fleiri bolta og spiluðu betri vörn heldur en eyjakonur.

Hverjar stóðu upp úr?

Í liði Stjörnunnar átti Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir virkilega góðan leik en hún skoraði tvö af þremur mörkum leiksins. Hún var alltaf mætt fyrst upp og skapaði mörg færi fyrir Stjörnuna í dag. Birta Guðlaugsdóttir var frábær í marki Stjörnunnar en henni tókst að verja öll skot sem á hana komu í dag, þar á meðal eitt víti.

Delaney Baie Pridham stóð upp úr í liði ÍBV en hún átti mörg fín færi í leiknum og varðist vel sterku liði Stjörnunnar. Hún fiskaði einnig eina víti leiksins en því miður brenndi hún á því.

Hvað gekk illa?

Eyjakonur áttu heilt yfir virkilega erfitt í dag. Þær fengu á sig fyrsta markið eftir um 20. mínútna leik og áttu frekar erfitt uppdráttar eftir það. Heilt á litið náðu þær sjaldan að skapa sér almennileg færi en þegar þau komu voru þær lengi að hlaupa til baka. Hildigunnur Ýr reyndist þeim erfiður andstæðingur í dag en henni tókst að leika á vörn ÍBV virkilega vel og komst of oft ein í gegn. ÍBV fengu eina víti leiksins en brenndu af því.

Hvað gerist næst?

ÍBV leika næst á fimmtudaginn en þá fá þær Valskonur í heimsókn í leik um sæti í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Næsti leikur Stjörnunnar fer fram fimmtudaginn 30. júní en þá fara þær í Kópavoginn og mæta íslandsmeisturunum í Breiðablik.

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV: Birta var frábær

„Loksins vinnum við leik hérna heima, þetta er fyrsti sigurinn sem við náum á heimavelli þetta vorið. Ég er aðallega ánægður með fyrri hálfleikinn en hann leggur grunninn að þessum sigri. Við spiluðum gríðarlega vel í fyrri hálfleik og þetta var gott mark. En seinni hálfleikurinn var ekki góður, sem er ekki gott en við unnum.“

„Það kom smá hiti í leikinn, það byrjaði í raun á vítaspyrnudómnum sem okkar stúlkur inni á vellinum voru ekki ánægðar með. Það var samt snúningspunkturinn fyrir okkur í seinni hálfleik því að við gátum í rauninni ekki neitt frá því að það var flautað af í hálfleik en það kveikti í okkur þegar Birta varði vítið. Stelpurnar sem komu svo inn á um miðbik seinni hálfleiks færðu einnig mikla orku inn í leikinn og við skoruðum þá tvö mörk í viðbót.“

„Birta er að fara til Bandaríkjanna, því miður, því þetta var alveg frábær leikur hjá henni. Hún hefur haft það í huga að þetta hafi verið með seinustu skipunum sem hún spilar með okkur áður en hún flytur út. Hún var samt sem áður alveg gríðarlega einbeitt og spilaði mjög vel í dag.“

„Við ætlum bara að reyna að halda áfram að vinna og við eigum Breiðarblik næst, sem er mjög spennandi. Það eru bara tveir leikir eftir af fyrri umferðinni og við skoðum okkur stöðu þegar fyrri helmingurinn er búinn. Það verður kannski komið sumar þá.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira