Íslenski boltinn

Hefur skrifað sína 76.918. og síðustu frétt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Magnús Már Einarsson á skrifstofu Fótbolta.net.
Magnús Már Einarsson á skrifstofu Fótbolta.net. vísir/vilhelm

Magnús Már Einarsson hefur látið af störfum sem ritstjóri Fótbolta.net. Hann hefur unnið hjá vefnum undanfarin nítján ár, eða síðan hann var þrettán ára.

Í færslu á Twitter segir Magnús að hann ætli að einbeita sér að þjálfun og fjölskyldu sinni. Hann er á sínu öðru tímabili sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu.

fotbolti.net hefur verið risastór hluti af mínu lífi alla daga, allt árið um kring síðan árið 2002. Vorið 2002 stofnaði Hafliði Breiðfjörð síðuna og þegar ég sá auglýsingu þar sem auglýst var eftir fólki til að skrifa um leiki þá sótti ég um og byrjaði að skrifa um leiki hjá Aftureldingu. Eitt leiddi af öðru, 13 ára Maggi óð af stað, fór fljótt að skrifa meira og meira á síðuna. Þrátt fyrir að vera 140 cm á hæð og skrækróma á þessum tíma (og reyndar allt til 18 ára aldurs) var mér virkilega vel tekið og fljótlega var ég farinn að fjalla um leiki í öllum deildum og taka viðtöl við ýmsar stjörnur í boltanum. Jose Mourinho var reyndar ekki alveg að átta sig þegar ég bað hann um viðtal á Laugardalsvelli árið 2004....hann hélt líklega að það væri falin myndavél í gangi,“ skrifar Magnús.

„Eftir útskrift úr framhaldsskóla árið 2009 fór ég í fullt starf á síðunni þar sem ég hef verið ritstjóri ásamt Elvari Geir Magnússyni í áraraðir. Eftir að hafa skrifað 76918 fréttir á síðuna í gegnum tíðina er komið að kaflaskilum.“

Magnús segir að hápunktarnir á blaðamannaferlinum hafi verið að fylgja íslenska karlalandsliðinu á stórmótin tvö, EM 2016 og HM 2018.

Þrátt fyrir að Magnús sé ekki lengur ritstjóri Fótbolta.net verður hann enn hluthafi í fyrirtækinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×