Enski boltinn

Flosnað upp úr viðræðum Conte við Tottenham

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Vill fá að versla.
Vill fá að versla. vísir/Getty

Antonio Conte mun ekki taka við enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham Hotspur.

Conte, sem gerði Inter að Ítalíumeisturum á dögunum og sagði upp störfum þar í kjölfarið var efstur á óskalista forráðamanna Tottenham en nú þykir orðið ljóst að hann muni ekki taka við stjórnartaumunum eftir að viðræður sigldu í strand.

Heimildir enskra fjölmiðla herma að Conte hafi ekki verið mjög spenntur fyrir starfinu og framtíðaráform Daniel Levy, stjórnarformanns Tottenham, hafi ekki aukið áhugann hjá Conte.

Tottenham var ekki tilbúið að veita Conte það fjármagn til leikmannakaupa sem ítalski stjórinn telur sig þurfa hjá Lundúnarliðinu auk þess sem hann var ekki hrifinn af þeirri hugmynd stjórnarmanna að leggja aukna áherslu á að spila ungum leikmönnum félagsins.

Þrátt fyrir að Conte hafi gefið viðræðurnar upp á bátinn mun landi hans, Fabio Paratici, að öllum líkindum verða ráðinn yfirmaður leikmannamála hjá Tottenham en hann hefur unnið lengi hjá Juventus, meðal annars árin sem Conte stýrði ítalska stórveldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×