Enski boltinn

Eigandi Man City lofar því að kaupa „nýjan Sergio Aguero“ og fleiri góða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero fékk flugferð eftir síðasta deildarleikinn sinn með Manchester City.
Sergio Aguero fékk flugferð eftir síðasta deildarleikinn sinn með Manchester City. AP/Peter Powel

Englandsmeistarar Manchester City ætla í sumar að eyða pening í nýjan leikmenn þar á meðal í einn sem er ætlað að fylla í skarðið sem framherjinn Sergio Aguero skilur eftir sig.

Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður og eigandi Manchester City, lofar því að City styrki sig með alvöru leikmönnum í sumarglugganum.

Sergio Aguero er markahæsti og sigursælasti leikmaður Manchester City í sögunni en hann rennur út á samningi í sumar og ákvað að færa sig suður til Barcelona.

„Við erum að missa mikilvæga goðsögn í Sergio Aguero. Það verður erfitt að fylla í hans skarð en ég hef trú á því að við finnum rétta leikmanninn til að fara í hans skó,“ sagði Khaldoon Al Mubarak.

„Liðið þarf líka liðstyrk á öðrum stöðum. Ekki of marga. Þetta snýst ekki um fjöldann heldur gæðin,“ sagði Al Mubarak.

„Eitt af því sem ég hef lært í gegnum árin er að þú þarf alltaf að vera koma með hæfileikaríka leikmenn inn í hópnum til að hrista aðeins upp í liðinu og ekki síst ef þú ert með liðið þitt á toppnum,“ sagði Al Mubarak.

Manchester City var að vinna sinn þriðja Englandsmeistaratitil á fjórum árum í vor og endaði tólf stigum á undan næsta liði sem voru nágrannar þeirra í Manchester United. City tapaði aftur á móti fyrir Chelsea í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og á enn eftir að vinna bikarinn með stóru eyrun.

„Það að vinna deildina er ekki ástæða til að slaka á og vera sáttir. Það yrði okkar stærstu mistök. Nú er tíminn til að senda frá sér sterk skilaboð að það er engin hér sáttur við að vinna bara ensku deildina,“ sagði Al Mubarak.

Sergio Ramos, miðvörður og fyrirliði Real Madrid, er einn af leikmönnunum sem eru sagðir mögulega á leiðinni til Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×