Liver­pool sótti sigur á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Roberto Firmino og Diogo Jota skoruðu mörk Liverpool í fyrri hálfleik.
Roberto Firmino og Diogo Jota skoruðu mörk Liverpool í fyrri hálfleik. EPA-EFE/Peter Powell

Liverpool lagði Manchester United 4-2 í kvöld. Frábær sigur hjá gestunum en enn og aftur verða föst leikatriði heimamönnum að falli. Um var að ræða frestaðan leik og virtist sem leik kvöldsins yrði mögulega einnig frestað en aftur var mótmælt fyrir utan Old Trafford, heimavöll Man United.

Alisson kom sér í vandræðum strax á fimmtu mínútu þegar hann gaf boltann á Edinson Cavani sem hitti á einhvern ótrúlegan hátt ekki á markið úr D-boganum. Cavani til varnar var varnarmaður Liverpool nálægt honum en einfalt innanfótarskot hefði átt að duga til að koma heimamönnum yfir.

United komst yfir fimm mínútum síðar. Eftir góða sókn fékk Bruno Fernandes boltann innan vítateigs. Portúgalinn átti utanfótar skot sem hafi viðkomu í Nat Phillips og þaðan í netið. Staðan orðin 1-0 og heimamenn töluvert betri í upphafi leiks.

Á 23. mínútu átti Trent Alexander-Arnold góða sendingu inn á teig United þar sem Diogo Jota gerði sig líklegan. Dean Henderson kom hins vegar vel út úr marki sínu og varði vel. Skömmu síðar flautaði Anthony Taylor, dómari leiksins, vítaspyrnu en eftir að hafa farið sjálfur og skoðað atvikið ákvað hann að draga ákvörðunina til baka.

Jota jafnaði hins vegar metin á 34. mínútu með frábæru marki eftir mikinn darraðardans í vítateig Manchester United eftir fast leikatriði. Nat Phillips átti á endanum skot sem Jota stýrði með hælnum í netið og staðan orðin 1-1.

Í blálok fyrri hálfleiks braut Paul Pogba af hægra megin við vítateig Man United. Trent tók spyrnuna á fjær þar sem Roberto Firmino stakk sér á blindu hliðina á Pogba og stangaði knöttinn í netið. Staðan orðin 2-1 og þannig var hún í hálfleik.

Staðan var ekki 2-1 lengi í síðari hálfleik en Firmino fylgdi eftir skoti Trent sem Henderson varði beint út í teig. Varnarleikur og uppspil United-manna ekki til útflutnings í markinu og staðan orðin 3-1.

Þegar rúm klukkustund var liðin fékk Jota gullið tækifæri til að klára leikinn. Man Utd töpuðu þá boltanum og Liverpool brunaði í skyndisókn. Mohamed Salah fann Firmino sem fann Jota sem ÞRUMAÐI knettinum í stöng og út.

Rashford minnkaði muninn.EPA-EFE/Michael Regan

Á 67. mínútu fengu heimamenn líflínu eftir snarpa sókn renndi Marcus Rashford knettinum í netið með vinstri fæti eftir að hafa fengið sendingu frá Edinson Cavani í gegnum vörn Liverpool. Varamaðurinn Mason Greenwood var svo hársbreidd frá því að jafna metin skömmu síðar en hann átti þá tvívegis skot í varnarmenn gestanna af stuttu færi.

Mo Salah gulltryggði sigur gestanna undir lok leiks er hann slapp einn í gegn. Hann lagði boltann þægilega í fjær en Henderson lokaði litlu sem engu í marki heimamanna.

Salah kláraði dæmið.EPA-EFE/Dave Thompson

Lokatölur 4-2 og stigin þrjú Liverpool-manna í kvöld. Manchester United er sem fyrr í 2. sæti með 70 stig að loknum 36 leikjum á meðan Liverpool er í 5. sæti með 60 stg að loknum 35 leikjum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.