Enski boltinn

Woodward hættir í lok árs

Anton Ingi Leifsson skrifar
Woodward heyrir sögunni til hjá United í lok ársins 2021.
Woodward heyrir sögunni til hjá United í lok ársins 2021. Richard Heathcote/Getty Images

Ed Woodward, framkvæmdastjóri Manchester United, mun hætta í starfi sínu hjá félaginu í lok ársins. Þetta staðfesti félagið í kvöld.

Man. United hafði samþykkt það að taka þátt í hinni svokölluðu Ofurdeild sem verður að öllum líkindum blásin af áður en hún hófst eftir mikil mótlæti.

Woodward, sem er 49 ára, hefur verið í starfi sínu hjá United frá því árið 2013 en nú hefur verið staðfest að hann muni hverfa frá störfum hjá United í lok ársins.

Samkvæmt heimildum BBC Sport höfðu Glazer fjölskyldan og Woodward komist að þessari niðurstöðu fyrir nokkru síðan og ekki hafi verið nein ósætti.

Eftir allt fjaðrafokið í kringum Ofurdeildina hafi hins vegar verið ákveðið að flýta því að tilkynna um brotthvarf Woodwards.

Woodward hefur ekki alltaf verið vinsæll meðal stuðningsmanna United og var meðal annars ráðist að heimili hans í janúar 2018.

Woodward hélt neyðarfund með leikmönnum United í gær þar sem skýrði af hverju félagið hefði tekið þátt í að stofna ofurdeildina.

Samkvæmt heimildum Daily Mail voru viðbrögð leikmanna United dræm og þeir voru ósáttir við að knattspyrnustjórinn, Ole Gunnar Solskjær, skyldi þurfa að svara fyrir gjörning eigendanna eftir leikinn.

Mike Keegan, blaðamaður Daily Mail, greindi svo frá því á Twitter að Maguire hafi látið Woodward heyra það fyrir að láta leikmenn ekki vita af fyrirætlunum United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×