Enski boltinn

Segir Arteta að henda Auba­mey­ang á bekkinn og spila Martinelli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aubameyang liggur í grasinu og Arteta fylgist með. Nú er spurning hvort að Aubameyang verði í byrjunarliðinu í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöldið.
Aubameyang liggur í grasinu og Arteta fylgist með. Nú er spurning hvort að Aubameyang verði í byrjunarliðinu í Evrópudeildinni á fimmtudagskvöldið. Stuart MacFarlane/Getty

Martin Keown, fyrrum varnarmaður Arsenal og enska landsliðsins, segir að Mikel Arteta ætti að skella Pierre-Emerick Aubameyang á bekkinn og spila hinum nítján ára gamli Gabriel Martinelli.

Arsenal tapaði 3-0 fyrir ensku meisturunum í Liverpool á laugardagskvöldið en Arsenal átti aldrei möguleika í leiknum. Af mörgum slökum leikmönnum Arsenal var Aubameyang ofarlega á listanum.

„Þetta var 50. leikur Mikel Arteta við stjórnvölinn hjá Arsenal og það er erfitt að muna eftir verri frammistöðu. Nú verður leikurinn á fimmtudaginn gegn Slavia Prag enn stærri,“ skrifaði Keown í pistli sínum á Daily Mail.

„Arteta verður að taka stóra ákvörðun varðandi fyrirliðann. Hann setti fordæmi með að setja hann á bekkinn í norður Lundúnarslagnum nýlega. Aubameyang átti að byrja gegn Spurs en mætti of seint og var settur á bekkinn.“

Keown veltir fyrir sér hvort að Arteta missi álit leikmannahópsins ef að hann velur Aubameyang áfram í byrjunarliðið þrátt fyrir slaka frammistöðu.

„Ætti Arteta að halda áfram að velja hann eftir slaka frammistöðu gegn Liverpool? Ef hann heldur áfram að velja hann, þá gæti hann misst virðingu hópsins. Það er tími til þess að setja hinn 19 ára gamli Gabriel Martinelli inn.“

„Hann er of góður til þess að sitja á bekknum. Liðsfélagar hans sjá hann á æfingum og vita hvað hann getur svo þeir verða hissa ef hann spilar ekki. Ég verð það líka,“ skrifaði Keown.

Allan pistil Keown má sjá með því að smella á hlekkinn hér að neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.