Erlent

Osbourne deilir örlögum Morgan og er látin taka pokann sinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sharon Osbourne og Piers Morgan eru gamlir vinir.
Sharon Osbourne og Piers Morgan eru gamlir vinir. Vísir/Getty/Epa

Raunveruleikaþáttastjarnan Sharon Osbourne mun ekki snúa aftur í spjallþáttinn The Talk, eftir heita umræðu í þættinum um rasisma. Umræðan átti sér stað í kjölfar þess að Osbourne lýsti yfir stuðningi við sjónvarpsmanninn Piers Morgan.

Morgan var látinn taka pokann sinn sem einn þáttastjórnenda Good Morning Britain, eftir að hann átti í orðaskiptum í þættinum um viðtal Opruh Winfrey við Harry Bretaprins og Meghan Markle.

Sagði Morgan meðal annars að hann tryði ekki orði af því sem Meghan sagði í viðtalinu en hún hélt því meðal annars fram að húðlitur barns hjónanna hefði verið til umræðu innan konungsfjölskyldunnar.

Þá sagðist hún hafa verið afar þunglynd og íhugað sjálfsvíg en ekki fengið stuðning.

Morgan var harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín og metfjöldi kvartana barst fjölmiðla- og samskiptaeftirlitsstofnuninni Ofcom. Osbourne kom sjónvarpsmanninum hins vegar til varnar og tísti meðal annars að fólk ætti til að gleyma því að hann fengi borgað fyrir að viðra skoðanir sínar.

Þegar annar meðstjórnenda Osbourne kom inn á tístið í þætti af The Talk sagðist síðarnefnda hafa það á tilfinningunni að það ætti að „setja sig í rafmagnsstólinn“ af því að hún ætti vin sem sumum þætti rasískur og því hlyti hún að vera rasisti.

Skoraði hún á Sheryl Underwood að benda sér á rasísk ummæli sem hún hefði látið falla.

„Þetta snýst ekki um rasisma með beinum orðum, heldur hvað hann felur í sér og viðbrögðin við honum,“ svaraði Underwood. 

Osbourne baðst síðar afsökunar en gaf í kjölfarið í skyn að sér hefði verið „fórnað“ af framleiðendum þáttanna. Hún hefur ekki tjáð sig um ákvörðun CBS að láta sig fara.

The Talk fór fyrst í loftið árið 2010 og Osbourne hefur verið einn þáttastjórnenda frá upphafi. Hún og Morgan voru um tíma bæði dómarar í þættinum America's Got Talent.


Tengdar fréttir

Aldrei fleiri kvartanir borist

Rúmlega 57 þúsund kvartanir hafa borist breska eftirlitsaðilanum Ofcom í kjölfar þáttar Good Morning Britain í síðustu viku þar sem viðtal Opruh Winfrey við hertogahjónin af Sussex var til umræðu. Aldrei hafa jafn margar kvartanir borist fjölmiðlaeftirlitinu vegna sjónvarpsefnis áður.

Morgan stendur við orð sín um Meghan og bætir í

Fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan, sem hætti í gær sem þáttastjórnandi í Good Morning Britain á ITV-sjónvarpsstöðinni vegna ummæla sinna um Meghan Markle, segist standa við það sem hann sagði.

Enginn Morgan á morgnana í kjölfar ummæla um Meghan

Sjónvarpsmaðurinn Piers Morgan hefur ákveðið að hætta sem einn þáttastjórnenda Good Morning Britain, eftir uppákomu í þættingum í gærmorgun þegar viðtal hertogahjónanna Harry og Meghan við Oprah Winfrey bar á góma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×