Lífið

Aldrei fleiri kvartanir borist

Sylvía Hall skrifar
Piers Morgan stendur við ummæli sín, þrátt fyrir að metfjöldi kvartana hafi borist.
Piers Morgan stendur við ummæli sín, þrátt fyrir að metfjöldi kvartana hafi borist. Getty/MWE/GC Images

Rúmlega 57 þúsund kvartanir hafa borist breska eftirlitsaðilanum Ofcom í kjölfar þáttar Good Morning Britain í síðustu viku þar sem viðtal Opruh Winfrey við hertogahjónin af Sussex var til umræðu. Aldrei hafa jafn margar kvartanir borist fjölmiðlaeftirlitinu vegna sjónvarpsefnis áður.

Í þættinum sagðist þáttastjórnandinn Piers Morgan „ekki trúa orði“ af því sem Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, sagði í viðtalinu en þar greindi hún meðal annars frá því að hún hefði verið í sjálfsvígshugleiðingum um tíma og að hún hafi upplifað rasisma í sinn garð, bæði af hálfu breskra fjölmiðla og innan konungsfjölskyldunnar sjálfrar.

Þátturinn vakti hörð viðbrögð og sendi Markle sjálf inn kvörtun. Morgan hætti sem þáttastjórnandi í kjölfar þáttarins.

Ofcom hefur haft eftirlit með bresku sjónvarpi frá árinu 2003, en fyrra kvörtunarmet hafði staðið frá árinu 2007 þar sem áhorfendur kvörtuðu undan rasisma í lokaþætti af Celebrity Big Brother. Kvartanir vegna þáttar Good Morning Britain eru nú orðnar 57.121, tólf þúsund fleiri en fyrra met.

Til samanburðar bárust 4.398 kvartanir vegna viðtals Opruh við hjónin sem var sýnt á ITV þann 8. mars. Morgan, nú fyrrverandi þáttastjórnandi Good Morning Britain, sagði á Twitter í dag að það væru fleiri sem hefðu fagnað orðum hans en kvartað vegna þeirra.

„Stór meirihluti Breta styður mig.“


Tengdar fréttir

Álit Breta á Meg­han og Harry aldrei verið verra

Álit bresks almennings á hjónunum Meghan Markle og Harry prins hefur aldrei verið eins slæmt og núna eftir að umdeilt viðtal Opruh Winfrey við hjónin var sýnt. Viðtalið vakti heimsathygli þar sem þau greindu meðal annars frá því að fjölskyldumeðlimir Harry hafi lýst áhyggjum yfir litarhafti sonar þeirra áður en hann fæddist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×