Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, sagði frá fundinum í gær. Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis, sagði við þýska miðilinn Bild að Austurríkismenn og Danir vildu ekki lengur treysta Evrópusambandinu einu fyrir bóluefni vegna þess hversu hægt framleiðslan gengur og seinagangs Lyfjastofnunar Evrópu að samþykkja ný bóluefni.
„Austurríki og Danmörk eru bæði aðildarríki að ESB og hafa tekið virkan þátt í samstarfinu gegn Covid-19. En ég held við getum ekki látið það eitt duga lengur af því það er þörf á aukinni framleiðslugetu. Þess vegna ætlum við sem betur fer í samstarf við Ísrael,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Engir hafa bólusett fleiri en Ísraelar og hið væntanlega samkomulag snýst um sameiginlega framleiðslu á bóluefni, ekki sölu á því bóluefni sem Ísraelar hafa keypt.
Fleiri Evrópusambandsríki gera nú eigin samninga um bóluefni. Slóvakar hafa pantað tvær milljónir skammta af rússneska efninu Spútnik og Tékkar íhuga að gera slíkt hið sama. Þá hafa Ungverjar fengið bóluefni frá kínverska framleiðandanum Sinopharm.