Erlent

Sakaður um drykkju og neyslu lyfja í starfi sem læknir Hvíta hússins

Samúel Karl Ólason skrifar
Ronny Jackson er nú þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings.
Ronny Jackson er nú þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings. Getty/Tom Williams

Í starfi sínu sem læknir Hvíta hússins, talaði Ronny Jackson með niðrandi og kynferðislegum hætti um kvenkyns undirmann sinn. Þá drakk hann í vinnunni og neytti svefnlyfja svo samstarfsmenn hans höfðu áhyggjur af því að hann gæti ekki sinnt skyldum sínum.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu innri endurskoðenda varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sem byggir á áralangri rannsókn á Jackson. Hún hófst 2018, samkvæmt frétt CNN, og var um tíma hans í ríkisstjórnum bæði Baracks Obama og Donalds Trump.

Rætt var við 78 vitni og farið yfir opinber gögn við gerð skýrslunnar. Þar kemur fram að lögmenn Hvíta húss Trumps hafi krafist þess að vera viðstaddir öll viðtöl við meðlimi ríkisstjórnarinnar og það hafi komið niður á rannsókninni.

Jackson situr nú í fulltrúadeild Bandaríkjaþings sem þingmaður Texasríkis.

Eftir að Trump tilnefndi Jackson í embætti ráðherra málaefna uppgjafahermanna, þurfti hann að draga tilnefninguna til baka í kjölfar ásakana sem sneru meðal annars að því að hann hefði drukkið í starfi sínu.

Í tilkynningu til fjölmiðla vestanhafs segir þingmaðurinn að skýrslan hafi sprottið af pólitískum rótum og gamlar ásakanir gegn honum hafi verið vaktar til lífsins vegna stuðnings hans við Trump.

Þá þvertekur hann fyrir að hafa neitt áfengis í vinnunni.

Jackson komst fyrst í sviðsljósið á heimsvísu eftir að Trump bað hann um að framkvæma sérstaka vitsmunarannsókn í fyrstu opinberu læknisskoðun sinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.