Erlent

Mót­mælin halda á­fram þrátt fyrir net­leysi

Sylvía Hall skrifar
Mótmælendur hafa krafist þess að Aung San Suu Kyi verði látin laus.
Mótmælendur hafa krafist þess að Aung San Suu Kyi verði látin laus. Getty/Lauren DeCicca

Mótmælendur í Mjanmar halda áfram að mótmæla í Yangon þrátt fyrir að herforingjastjórnin, sem tók völdin í vikunni sem leið, hafi lokað á Internet-tenginu landsins sem og helstu samfélagsmiðla. Ákvað herinn að loka á netið svo mótmælendur gætu ekki skipulagt sig.

Greint var frá því í gær að almenningur hefði litla sem enga tengingu við Internetið, en þeir hafa undanfarna daga krafist lausnar á kjörnum leiðtoga landsins, Aung San Suu Kyi.

Flokkur Suu Kyi hlaut áttatíu prósent þingsæta í kosningunum þar í landi í nóvember síðastliðnum. Krefjast mótmælendur þess að lýðræðið sé virt og hafa þeir fundið leiðir til þess að deila myndefni frá mótmælunum til umheimsins.

„Við munum halda áfram og halda kröfum okkar til streitu þangað til fáum lýðræði,“ er haft eftir einum mótmælanda á AFP fréttaveitunni.

Ákæra var gefin út á hendur Suu Kyi í vikunni þar sem hún er sökuð um ólöglegan innflutning á samskiptatækjum, en sex talstöðvar fundust á heimili hennar að sögn hersins. Aðrir stjórnmálamenn í landinu hafa einnig settir í varðhald undanfarna viku. 

Þá fullyrðir herinn að brögð hafi verið í tafli þegar kosningarnar fóru fram á síðasta ári, en herinn hafði stjórnað landinu að miklu leyti á bak við tjöldin og aldrei fyllilega sleppt takinu frá því borgaraleg stjórn komst á árið 2015.


Tengdar fréttir

Loka á Face­­book og aðra sam­­fé­lags­­miðla í landinu

Herforingjastjórnin í Mjanmar hefur lokað á Facebook og aðra samfélagsmiðla í landinu og segist með því vera að tryggja stöðugleika í landinu. Herinn tók á dögunum völdin í Mjanmar og hneppti fjölda stjórnmálamanna í varðhald, þar á meðal kjörinn leiðtoga landsins, Aung San Suu Kyi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×