Erlent

Biden hótar að beita refsiaðgerðum gegn Mjanmar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur hótað því að viðskiptahömlum og refsiaðgerðum verði aftur komið á gagnvart Mjanmar eftir að her landsins tók völdin.

Refsiaðgerðir voru í gildi gegn landinu um árabil en þeim hafði verið aflétt eftir að herinn hóf að deila völdum í landinu með stjórnarandstöðunni með Aung San Suu Kyi í broddi fylkingar.

Nú hefur hún verið hneppt í varðhald og herlög verið sett sem eiga að gilda í ár, en herinn sakar stjórnmálamennina í landinu um víðtækt kosningasvindl eftir stórsigur þeirra í kosningum í nóvember síðastliðnum.

Sameinuðu þjóðirnar, Bretland og Evrópusambandið hafa einnig fordæmt valdaránið og Suu Kyi, sem sjálf sat í stofufangelsi frá 1989 til 2010, hefur hvatt stuðningsmenn sína til að mótmæla framferði hersins.

Sérfræðingar segja þó að ekki sé víst að hótanir Biden hafi mikil áhrif; herforingjarnir hafi meiri áhyggjur af því hvernig Kínverjar, Japanir og Suður-Kóreumenn bregðast við valdaráninu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.