Enski boltinn

Mourinho refsar Lamela fyrir að brjóta sóttvarnarreglur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho ætlar ekki að nota Erik Lamela gegn Brentford annað kvöld.
José Mourinho ætlar ekki að nota Erik Lamela gegn Brentford annað kvöld. getty/Tottenham Hotspur FC

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, ætlar ekki að nota Erik Lamela í leiknum gegn Brentford í undanúrslitum enska deildabikarsins eftir að Argentínumaðurinn braut sóttvarnarreglur um jólin.

Á dögunum birtist mynd frá gleðskap þar sem Tottenham-mennirnir Lamela, Giovani Lo Celso og Sergio Reguilón og Manuel Lanzini, leikmaður West Ham, gestir. Á myndinni voru fimmtán fullorðnir og þrjú börn sem er klárt brot á ströngum sóttvarnarreglum í Bretlandi.

Lamela lék ekki með Tottenham í 3-0 sigrinum á Leeds United í ensku úrvalsdeildinni á laugardaginn og Mourinho segir að hann muni heldur ekki nota hann í leiknum gegn Brentford á morgun.

„Ég get ekki valið hann,“ svaraði Mourinho er hann var spurður hvort Lamela yrði með gegn Brentford. „Það er ekki mitt að segja ykkur af hverju en hann getur ekki spilað gegn Brentford.“

Mourinho lýsti yfir vonbrigðum sínum með sóttvarnarbrot þremenningana. Hann virtist sérstaklega sár út í Reguilón en hann færði spænska bakverðinum mat á jóladag þar sem hann hélt að hann yrði einn á jólunum.

„Hann var ekki einn eins og allir sáu og við sem félag erum vonsvikin því leikmennirnir hafa fengið allar upplýsingar og fræðslu sem til þarf. Við erum ekki sátt. Þetta var óvænt og neikvæð uppákoma.“

Lamela baðst afsökunar á því að hafa verið í jólapartíinu, sagðist sjá mikið eftir því og hreinlega skammast sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×