Erlent

Telja að tilslakanir geti tvöfaldað fjölda látinna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Missouri í Bandaríkjunum þar sem tveggja metra reglan er virt.
Frá Missouri í Bandaríkjunum þar sem tveggja metra reglan er virt. (AP/Charlie Riedel)

Sérfræðingar í Bandaríkjunum telja að tilslakanir sumra ríkja í Bandaríkjunum og þau áhrif sem það muni hafa á útbreiðslu kórónuveirunnar þar í landi muni leiða til þess að fjöldi látinna geti tvöfaldast frá fyrri spám.

Þetta er meðal þess sem uppfært líkan á vegum háskólanum í Washington spáir. Síðasta spá sem gerð var 17. apríl síðastliðinn gerði ráð fyrir 60 þúsund dauðsföllum í Bandaríkjunum þangað til 4. ágúst næstkomandi. Nýjasta spáin gerir hins vegar ráð fyrir allt að 135 þúsund dauðsföllum vegna Covid-19 sjúkdómsins.

Alls stefna 31 ríki Bandaríkjanna á einhvers konar tilslakanir á þeim aðgerðum sem settar hafa verið á til þess að stemma í stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Hin nýja spá tekur þetta með í reikninginn og reiknar með að tilslökununum fylgi meiri samgangur á milli fólks, sem geti auðveldað veirunni að dreifa sér.

Hvíta húsið hefur nýtt sér spálíkanið frá Washington-háskóla til þess að átta sig á stöðunni í Bandaríkjunum. Í minnisblaði sem verið hefur í dreifingu innan Hvíta hússins og New York Times birti í dag kemur fram að reiknað sé með að allt að þrjú þúsund manns muni láta lífið á hverjum degi áður en maí er úti.

Á sama tíma hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvatt ríki til þess að slaka á boðum og bönnum í tengslum við faraldurinn svo koma megi efnahag Bandaríkjanna aftur í gang.


Tengdar fréttir

Trump rekur eftir­lits­mann sem gagn­rýndi stöðu heil­brigðis­kerfisins

Donald Trump Bandaríkjaforseti, ákvað í gær að færa einn hæst setta starfsmann heilbrigðisráðuneytisins til í starfi. Starfsmaðurinn reitti Trump til reiði í síðasta mánuði þegar hann birti skýrslu sem dró fram veikleika heilbrigðiskerfisins gagnvart kórónuveirufaraldrinum í ljós.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×