Erlent

Hafna óháðri rannsókn á uppruna kórónuveirunnar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kínversk stjórnvöld vilja ekki að uppruni kórónuveirunnar sé rannsakaður. Hér sést Xi Jinping, aðalritari kínverska kommúnistaflokksins og forseti Kína.
Kínversk stjórnvöld vilja ekki að uppruni kórónuveirunnar sé rannsakaður. Hér sést Xi Jinping, aðalritari kínverska kommúnistaflokksins og forseti Kína. LI XUEREN/EPA

Kínversk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að ráðist verði í óháða rannsókn á uppruna kórónuveirunnar sem valdið getur sjúkdómnum Covid-19.

Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins, BBC. Þar kemur einnig fram að einn æðsti erindreki Kínverja í Bretlandi, Chen Wen, hafi sagt að kröfur um rannsókn á uppruna veirunnar væru pólitísks eðlis, auk þess sem rannsókn myndi dreifa athygli kínverskra stjórnvalda frá markmiði sínu, að hamla frekari útbreiðslu veirunnar.

Veiran er af mörgum talin hafa átt uppruna sinn á matarmarkaði í kínversku borginni Wuhan. Mikill samgangur er á milli dýra og manna á slíkum mörkuðum, og almennt hreinlæti ekki alltaf viðhaft. Þá hafa skotið upp kollinum samsæriskenningar um að veiran hafi verið sköpuð á kínverskri rannsóknarstofu og henni verið „sleppt“ viljandi eða óvart „sloppið.“ Hingað til hafa sérfræðingar þó gefið lítið fyrir slíkar kenningar.

Saka Kína um að dreifa lygum og falsfréttum

Í skýrslu sem gerð var af Utanríkisþjónustu Evrópusambandsins eru kínversk stjórnvöld sökuð um að dreifa markvisst lygum og falsfréttum um kórónuveirufaraldurinn. Í sömu skýrslu eru Rússnesk stjórnvöld sökuð um að dreifa samsæriskenningum í Evrópusambandinu og nágrannaríkjum þess.

Þá hefur Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ítrekað gagnrýnt Kínverja fyrir viðbrögð sín við faraldrinum. Eins hefur eitt ríkja Bandaríkjanna, Missouri, stefnt kínverskum stjórnvöldum fyrir aðgerðarleysi sitt í viðbrögðum við veirunni. Bandarískir dómstólar hafa hins vegar enga lögsögu yfir kínversku stjórnvöldum, og því óljóst hvernig málinu verður haldið til streitu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×