Erlent

Telja yfir fjórfalt fleiri hafa smitast í Kína í fyrstu bylgju faraldursins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Íbúi í Wuhan í ferðast með ferju í fyrsta sinn síðan borgin var opnuð á ný eftir faraldurinn nú í apríl.
Íbúi í Wuhan í ferðast með ferju í fyrsta sinn síðan borgin var opnuð á ný eftir faraldurinn nú í apríl. Vísir/AP

Yfir 232 þúsund manns gætu hafa fengið Covid-19-sjúkdóminn, sem kórónuveiran veldur, í fyrstu bylgju faraldursins í Kína, eða yfir fjórfalt fleiri en opinberar tölur gefa til kynna. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn vísindamanna í Hong Kong. Ástæðan að baki mismuninum er sögð þröng skilgreining kínverskra heilbrigðisyfirvalda á sjúkdómnum.

Frá og með 20. febrúar höfðu kínversk yfirvöld greint frá yfir 55 þúsund tilfellum sjúkdómsins í landinu. Samkvæmt rannsókninni, sem birt var í The Lancet, ritrýndu læknariti, hefði talan hækkað svo um munar ef þeirri skilgreiningu á Covid-19-tilfelli, sem notuð er nú, hefði verið beitt frá upphafi.

Sjá einnig: Skráð dauðs­föll vegna Co­vid-19 í Wu­han hækka um nærri 50 prósent

Kínversk heilbrigðisyfirvöld gáfu út sjö mismunandi skilgreiningar á sjúkdómnum frá 15. janúar til 3. mars. Í rannsókninni segir að þessar áherslubreytingar hafi haft „veruleg áhrif“ á þann fjölda Covid-19-sýkinga sem skráður var sem raunveruleg tilfelli og tekinn var með í opinberum tölum. Með hverri skilgreiningarbreytingu, þar sem m.a. var byrjað að taka vægari einkenni með í reikninginn, hefði þó hlutfall staðfestra smita aukist.

Það er því mat rannsakenda að ef útvíkkaðri skilgreiningu hefði verið beitt frá upphafi hefði tala smitaðra verið um 232 þúsund þann 20. febrúar en ekki 55 þúsund, eins og raunin var.

Lengi hefur allt þótt benda til þess að töluvert fleiri hafi veikst af Covid-19 í Kína en opinberar tölur segja til um. Þannig var greint frá því í síðustu viku að andlát af völdum veirunnar í kínversku borginni Wuhan, þar sem faraldurinn er talinn eiga upptök sín, séu um fimmtíu prósent fleiri en skráð hafði verið.

Tekið hefur að hægja verulega á faraldrinum í Kína en nýgreindum hefur fækkað verulega síðustu daga og vikur. Alls hafa um 83 þúsund smit verið skráð í Kína en á heimsvísu eru tilfelli nú orðin rúmlega 2,6 milljónir. Þá hafa yfir 183 þúsund látist af völdum veirunnar í heiminum.


Tengdar fréttir

Missouri höfðar mál gegn Kína

Stjórnvöld í Missouri í Bandaríkjunum hafa ákveðið að höfða mál gegn Kína þar sem yfirvöld þar í landi eru sökuð um að hafa ekki gert nægilega mikið til að stöðva útbreiðslu kórónuveirunnar.

Hagkerfi Kína dróst saman í fyrsta sinn í áratugi

Hagkerfi Kína dróst saman á fyrsta fjórðungi þessa árs. Það er í fyrsta sinn sem það gerist síðan yfirvöld landsins byrjuðu að taka hagtölur saman yfir ársfjórðunga árið 1992.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×