Erlent

Sýrlenskir flóttamenn lýsa þungum áhyggjum af kórónuveirunni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Staðan í búðunum er svört nú þegar en verður hreinlega hamfarakennd ef kórónuveiran berst þangað.
Staðan í búðunum er svört nú þegar en verður hreinlega hamfarakennd ef kórónuveiran berst þangað. EPA/AREF WATAD

Læknar án landamæra lýsa yfir áhyggjum af því að kórónuveiran gæti borist í sýrlenskar flóttamannabúðir. Nærri ómögulegt yrði að ráða við faraldurinn í búðunum.

Lífið í flóttamannabúðum í Idlib, síðasta stóra yfirráðasvæði sýrlenskra uppreisnarmanna, er langt frá því að vera dans á rósum. Þar er afar þétt búið og hreinlætisvörur eru af skornum skammti.

Einmitt þessir þættir eru ástæðan fyrir miklum áhyggjum af því hvað gerist ef kórónuveiran berst í sýrlenskar flóttamannabúðir. 

Ekkert nema sápa

Hussein Mohammed al-Dibo, flóttamaður, er ekki bjartsýnn á að hægt verði að ráða við faraldurinn. 

„Hér höfum við sápu en ekkert annað. Ég meina, ef öllum þessum stóru ríkjum mistókst að ráða við faraldurinn... hvað getum við þá gert? Hvað getum við gert sem valdamikil ríki gátu ekki?“

Hann býr í búðunum ásamt eiginkonunni Fatimu og börnum þeirra. Fatima kveðst afar áhyggjufull.

„Ég hef áhyggjur af því það eru svo mikil samskipto og ég hef miklar áhyggjur af sjúkdómnum því hér eru engar varnir, enginn stuðningur, sótthreinsiefni. Ekkert af þessu.“

Fátt hægt að gera

Tíu tilfelli hafa verið staðfest í Sýrlandi enn sem komið er og í raun gætu mun fleiri verið smituð. Heilbrigðiskerfið er í molum vegna borgarastyrjaldarinnar. 

Umsjónarmaður búðanna sem al-Dibo fjölskyldan býr í segir þær langt frá því að vera undirbúnar fyrir faraldurinn.

„Guð forði okkur frá því að veiran berist í flóttamannabúðirnar. Það yrði hamfarakennt. Dánartíðnin yrði afar há af því okkur skortir sérfræðinga, sótthreinsiefni og grímur.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×