Íslenski boltinn

Smit leikmanns í sumar setur 50-60 manns í sóttkví

Sindri Sverrisson skrifar
Margir bíða þess óþreyjufullir að Íslandsmótið hefjist en nándin í fótboltaleikjum er mikil.
Margir bíða þess óþreyjufullir að Íslandsmótið hefjist en nándin í fótboltaleikjum er mikil. VÍSIR/BÁRA

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, sagði á upplýsingafundi í dag ljóst að setja þyrfti 50-60 manns í sóttkví ef upp kæmi smit hjá leikmanni sem spilað hefði leik í efstu deild í fótbolta hér á landi.

Vonir standa til þess að hægt verði að hefja keppni í Pepsi Max-deildunum, og öðrum fótboltamótum hér landi, í júní en það veltur á því hvernig gengur að verjast kórónuveirufaraldrinum. Fyrstu skref við afléttingu samkomubanns verða tekin 4. maí en þá verða enn miklar takmarkanir á íþróttalífi í landinu. Næsta skref verður svo tekið um mánaðamótin maí-júní ef allt gengur að óskum og eftir það gætu æfingar í meistaraflokki mögulega farið fram án takmarkana, og mót hafist.

Víðir var spurður út í hættuna af því að leyfa leiki í efstu deildum, og hvað það hefði í för með sér ef að leikmaður greindist svo með Covid-19 smit:

„Það er alveg ljóst að ef að fram fer leikur þar sem að eru 11 leikmenn inn á í hvoru liði, 6-7 varamenn, starfsmenn liðanna og starfsmenn við framkvæmd leiksins… það eru mikil návígi, þegar það er búið að leyfa keppni, svo að eitt smit í svona hópi setur 50-60 manns í sóttkví í tvær vikur. Það er augljóst,“ sagði Víðir.

Eitt eða fleiri smit myndu því gera það enn erfiðara en nú þegar er, að klára heilt Íslandsmót með 22 umferðum í efstu deildum karla á komandi leiktíð sem upphaflega átti að hefjast í lok þessa mánaðar.


Tengdar fréttir

Flestir smitaðir eru ungt fólk

Þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn sé rénun á Íslandi biðja sóttvarnaryfirvöld fólk um að halda út næstu vikur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×