Enski boltinn

Arteta: Okkur skortir heppni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Óheppinn.
Óheppinn. vísir/Getty

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, segir leikmenn sína ekki hafa gefist upp á verkefninu þó allt hafi gengið á afturfótunum undanfarnar vikur.

Arsenal er aðeins fimm stigum frá fallsvæðinu eftir 2-1 tap gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag en síðasti sigur liðsins í deildinni kom þann 1.nóvember síðastliðinn.

„Án þess að fá mikið á okkur töpum við leiknum á tveimur lykilaugnablikum. Við brugðumst mjög vel við því. Við stjórnuðum leiknum og sköpuðum nóg af færum til að tapa ekki leiknum. Við skutum í slá. Okkur skortir heppni,“ sagði Arteta í leikslok.

Síðan Arsenal vann 0-1 sigur á Man Utd þann 1.nóvember hefur liðið tapað fyrir Aston Villa, Wolves, Tottenham, Burnley og Everton og gert jafntefli við Southampton og Leeds.

„Við erum í erfiðri baráttu. Við töpuðum gegn Burnley þótt þeir hafi ekki átt skot á markið og núna töpum við þegar hitt liðið fær tvö tækifæri,“ sagði Arteta áður en hann skaut á leikstíl Everton liðsins.

„Það er mjög erfitt að spila á móti liði sem verst svona neðarlega og nýtir hvert tækifæri til að tefja. Við gerum okkur erfitt fyrir með að fá á okkur fyrsta markið.“

„Ég held að við höfum átt fimmtán skot en bara tvö á markið. Við verðum að bæta okkur þar. Strákarnir eru áfram að berjast. Þeir eru sárir núna,“ sagði Arteta.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.