Erlent

Fyrstu bílar með bóluefni farnir af stað

Sylvía Hall skrifar
Flutningarnir marka stóran áfanga í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn vestanhafs.
Flutningarnir marka stóran áfanga í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn vestanhafs. AP/Morry Gash

Fyrstu flutningabílarnir sem flytja bóluefni um Bandaríkin voru sendir af stað frá verksmiðju Pfizer í borginni Portage í Michigan-ríki í dag. Brottför vörubílanna er sögð marka upphaf að umfangsmestu bólusetningu í sögu Bandaríkjanna.

Þrjár milljónir skammta voru fluttar með fyrstu bílum sem ætlaðir eru heilbrigðisstarfsfólki og íbúum hjúkrunarheimila. Búist er við því að skammtarnir verði komnir til 145 dreifingaraðila strax á morgun, 425 staðir bætast svo við á þriðjudag og síðustu 66 á miðvikudag, að því er fram kemur í frétt AP.

Bóluefnið verður síðan flutt á sjúkrahús og aðra staði sem geta geymt það við viðunandi aðstæður, en geyma þarf bóluefnið í 94 gráðu frosti. Pfizer hefur pakkað bóluefninu inn í þurrís og fylgja mælar sem fylgjast með því að hitastig geymslukassanna verði aldrei of hátt.

Bóluefnið er geymt í þurrís.AP/Morry Gash

Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna samþykkti neyðarleyfi fyrir bóluefni Pfizer og BioNTech á föstudag. Bóluefnið, sem veitir allt að 95% vörn gegn kórónuveirunni, reyndist samkvæmt úttekt stofnunarinnar vera bæði öruggt og árangursríkt.

Áætlað er að skammtar verði komnir á alla þá staði sem sjá um bólusetningar innan þriggja vikna.

Forstjóri lyfja- og matvælaeftirlit fullyrti að leyfið hafi verið veitt á vísindalegum grundvelli eftir greinagóða úttekt á bóluefninu. Einhverjir höfðu lýst yfir áhyggjum af því að ferlinu hefði verið flýtt þar sem Hvíta húsið hafði beitt miklum þrýstingi að fá leyfi fyrir helgi, en forstjórinn segir það af og frá.

Nú þegar eru bólusetningar hafnar í Bretlandi en upp hafa komið nokkur tilvik þar sem einstaklingar hafa fengið alvarleg ofnæmisviðbrögð. Lyfja- og matvælaeftirlit Bandaríkjanna hefur komið þeim tilmælum áleiðis að fólk með þekkt ofnæmi fyrir innihaldsefnum bóluefnisins eigi ekki að fá bólusetningu.

Klippa: Fyrstu bílar með bóluefni farnir af stað

Tengdar fréttir

Pfizer-skammtar fyrir tíu þúsund manns væntanlegir um áramótin

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa undirritað samning við bóluefnaframleiðandann Pfizer. Samningurinn kveður á um 170 þúsund skammta til Íslands sem dugir fyrir 85 þúsund manns. Áætlað er að fyrstu skammtarnir frá Pfizer berist um áramót, alls rúmlega 21 þúsund skammtar sem duga fyrir 10.600 manns.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.