Erlent

Barr kannast ekki við svindl og Giuliani ekki við náðunarspjall

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump fór mikinn á Twitter í dag og heldur því enn fram að hann hafi unnið ákveðin ríki og að stórfellt svindl hafi átt sér stað. Barr, einn af hans helstu stuðningsmönnum, kannast hins vegar ekki við það.
Trump fór mikinn á Twitter í dag og heldur því enn fram að hann hafi unnið ákveðin ríki og að stórfellt svindl hafi átt sér stað. Barr, einn af hans helstu stuðningsmönnum, kannast hins vegar ekki við það. epa/Michael Reynolds

William Barr, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir engar vísbendingar liggja fyrir um að stórfelld kosningasvik hefðu átt sér stað í nýafstöðnum forsetakosningum. „Hingað til höfum við ekki séð svindl af þeirri stærðargráðu að það hefði leitt til annarra úrslita í kosningunum,“ sagði Barr í viðtali við Associated Press.

Ráðherrann hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta, sem hefur ítrekað haldið því fram að kosningunum hafi verið „stolið“. Barr gekk svo langt að taka þá fordæmalausu ákvörðun að heimila undirmönnum sínum að rannsaka ásakanir Trump en hann hefur nú játað að þær rannsóknir hafi engu skilað.

„Ein staðhæfingin hefur gengið út á kerfisbundið svindl og snýst um að vélarnar hafi verið forritaðar til að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna,“ sagði Barr við AP. Þær fullyrðingar hefðu hins vegar ekki átt við rök að styðjast.

Barr sagði jafnframt að sumir virtust halda að það væri hlutverk refsiréttarkerfisins að taka fyrir ásakanir um kosningasvindl en réttur farvegur væru einkamál í hverju ríki fyrir sig. Flestar ásakanirnar snérust um einstaka tilvik, ekki kerfisbundin svik.

Segja Barr ekki hafa vit á málinu

Lögmenn Trump, Rudy Giuliani og Jenna Ellis, brugðust við ummælum Barr í yfirlýsingu og sögðu að með fullri virðingu fyrir ráðherranum þá hefði engin raunveruleg rannsókn átt sér stað af hálfu dómsmálaráðuneytisins.

Sögðu þau að ráðuneytið hefði ekki rannsakað þau „sönnunargögn“ sem Trump-teymið hefði lagt fram en það var einmitt það sem Barr sagði að væri ekki hlutverk alríkisdómskerfisins.

Í yfirlýsingunni sagði enn fremur að málaferlum vegna kosninganna yrði haldið áfram, til að tryggja að öll lögleg atkvæði yrðu talinn en ólögleg ekki. Þá ítrekuðu Giuliani og Ellis, með fullri virðingu, að svo virtist sem „skoðun“ Barr byggði hvorki á þekkingu né rannsókn á málinu.

Giuliani er einn af fáum sem enn standa þétt við bakið á forsetanum.epa/Stefani Reynolds

Ræddu Giuliani og Trump um náðun?

Þetta var ekki eina yfirlýsingin sem Giuliani sendi frá sér í dag en hann brást ókvæða við þegar New York Times greindi frá því að hann og Trump hefðu átt samtal um fyrirfram náðun til handa Giuliani.

„NYT lýgur aftur,“ sagði borgarstjórinn fyrrverandi á Twitter en samkvæmt fjölmiðlinum munu mennirnir áður hafa rætt um að forsetinn náðaði Giuliani áður en hann yfirgefur Hvíta húsið.

Giuliani ku hafa haft áhyggjur af því að rannsóknir sem hann kann að hafa sætt en hafa verið á bið í stjórnartíð Trump fari aftur af stað þegar Joe Biden verður forseti. Giuliani og tveir samverkamenn hans, Lev Parnas og Igor Fruman, hafa m.a. sætt rannsókn fyrir að hafa þrýst á stjórnvöld í Úkraínu um að rannsaka son Biden. Þá er Giuliani einnig grunaður um að hafa gengið erinda úkraínskra stjórnvalda við að koma bandaríska sendiherranum í Úkraínu frá.

Síðarnefnda er alríkisglæpur.

Ekki óþekkt að menn séu náðaðir fyrirfram

Það er ekki óþekkt að forsetar hafi náðað einstaklinga fyrirfram en það gerðist m.a. þegar Gerald R. Ford náðaði Richard M. Nixon fyrir alla gjörninga hans í embætti og Jimmy Carter náðaði þúsundir manna sem komu sér undan herskyldu í Víetnamstríðinu.

Sjálfur hefur Trump farið mjög frjálslega með náðunarvald sitt og beitt því í þágu samverkamanna á borð við Roger Stone, fyrrum ráðgjafa sinn, og Michael T. Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa. Þá er alveg eins búist við því að hann náði kosningastjórann Paul Manafort.

Sá böggull fylgir þó skammrifi að ef Trump ákveður að náða Giuliani fyrirfram, þá verður hann að tiltaka fyrir hvað.


Tengdar fréttir

Er sagður hafa krafið Trump um 2,7 milljónir á da

Rudolph W. Giuliani, sem hefur leitt tilraunir Donald Trump Bandaríkjaforseta til að fá úrslitum forsetakosninganna snúið, fór fram á að fá greitt fyrir sem samsvarar 2,7 milljónum króna á dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×