Erlent

Er sagður hafa krafið Trump um 2,7 milljónir á dag

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Rudy Giuliani hefur verið einn harðasti stuðningsmaður Trump en hann er greinilega ekki ókeypis.
Rudy Giuliani hefur verið einn harðasti stuðningsmaður Trump en hann er greinilega ekki ókeypis. Vísir/EPA

Rudolph W. Giuliani, sem hefur leitt tilraunir Donald Trump Bandaríkjaforseta til að fá úrslitum forsetakosninganna snúið, fór fram á að fá greitt fyrir sem samsvarar 2,7 milljónum króna á dag. 

Frá þessu greinir New York Times og hefur eftir nokkrum heimildamönnum.

Krafan fór fyrir brjóstið á einhverjum aðstoðarmanna og ráðgjafa Trump sem sögðu þvert nei en ekki hefur fengist uppgefið hver lendingin varð.

Ef Giuliani hefði fengið ósk sína uppfyllta hefði hann orðið best launaði lögmaður... ja, veraldar, segir New York Times.

Eftir á að hyggja vaknar sú spurning hvort borgarstjórinn fyrrverandi sé upphæðarinnar virði, þar sem málarekstur Trump-liða hefur ekki skilað tilskyldum árangri. Hefur flestum krafa þeirra verið vísað frá dómi.

Haft var samband við Giuliani, sem þverneitaði að hafa krafist svo mikils.

„Ég bað aldrei um 20 þúsund dali,“ sagði hann og bætti við að hann fengi ekki greitt fyrr en málið hefði verið leitt til lykta. „Samkomulagið er að við finnum út úr þessu eftir á.

Sá sem hefði nefnt upphæðina við blaðamenn væri „algjör lygari“.

Giuliani hefur í mörg ár verið persónulegur lögmaður Trump. Kosningateymi forsetans svaraði ekki fyrirspurnum um málið.

Umfjöllun New York Times.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.