Enski boltinn

Segir Klopp vera alveg eins og Fergu­­son | Mynd­band

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp í samræðum við fjórða dómara leiks Liverpool gegn Sheffield United fyrr á þessari leiktíð.
Klopp í samræðum við fjórða dómara leiks Liverpool gegn Sheffield United fyrr á þessari leiktíð. John Powell/Liverpool FC

Sparkspekingurinn Gary Neville líkti kvarti og kveini Jürgen Klopp – þjálfara Englandsmeistara Liverpol – við eitthvað sem Sir Alex Ferguson hefði gert á sínum tíma. Þeir vilja bara vinna.

Klopp lét gamminn geisa eftir 1-1 jafntefli Englandsmeistaranna gegn Brighton & Hove Albion á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í hádeginu á laugardag. Hafði Liverpool þá leikið í Meistaradeild Evrópu á miðvikudegi og var Þjóðverjinn verulega ósáttur með hversu stutt var á milli leikja.

Er það ekki í fyrsta sinn sem Klopp gagnrýnir leikjaáætlun úralsdeildarinnar á þessu tímabili.

Neville telur að þarna sé þjálfari Liverpool að reyna ná sálfræðilegu forskoti, líkt og Sir Alex Ferguson gerði á sínum tíma hjá Manchester United.

„Ég held að þegar þú verðir sigursæll þjálfari – á þeim stalli sem Sir Alex komst á – þá viltu bara vinna. Stærsta ógn Liverpool og Klopp í ár eru meiðsli leikmanna svo hann vill reyna ná forskoti með því koma þessu inn í höfuðið á fólki. Sir Alex gerði þetta í 15 eða 16 ár,“ sagði Neville í þættinum Monday Night Football í gærkvöld.

„Klopp hefur verið besti þjálfari deildarinnar undanfarin ár, bæði inn á vellinum sem og í viðtölum. Hann tengir betur við stuðningsmenn sína heldur en aðrir þjálfarar deildarinnar, fótboltinn sem lið hans spilar er frábær en á laugardag fór hann út af sporinu í viðtalinu. Hann var ekki með staðreyndirnar sínar á hreinu. Hann er að reyna ná forskoti sem mögulega hjálpar honum að ná í úrslit inn á vellinum,“ bætti Neville við.

Að lokum ræddi Neville rökin fyrir því að yfirstandandi tímabil væri sérstaklega erfitt þar sem leikmenn hefðu fengið svo litla hvíld. Hann var ekki sammála því og sagði að leikmenn hefðu fengið þriggja mánaða frí í mars til júní.

Síðan hefðu komið fimm vikur frá því að úrvalsdeildinni lauk og Góðgerðaskjöldurinn var spilaður. Er það allt að viku meira en leikmenn fá í sumarfrí þegar EM eða HM er sama sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×