Enski boltinn

Meiðslavandræði Englandsmeistara Liverpool ætla engan enda að taka

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Joe Gomez meiddist illa á æfingu með enska landsliðinu. Er talið að hann verði frá í langan tíma.
Joe Gomez meiddist illa á æfingu með enska landsliðinu. Er talið að hann verði frá í langan tíma. EPA-EFE/Jason Cairndruff

Það verður forvitnilegt að sjá hvaða varnarmenn eiga eftir mynda varnarlínu Englandsmeistara Liverpool í næsta leik liðsins en það eru einkar fáir eftir. Joe Gomez meiddist illa á æfingu með enska landsliðinu. Er talið að hann verði frá í töluverðan tíma.

Mikil meiðsli herja nú á varnarlínu Liverpool en ásamt Gomez er hægri bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold einnig frá vegna meiðsla. Hollenska varnartröllið Virgil van Dijk missir af tímabilinu eftir að hafa slitið krossband í hné og þá er miðjumaðurinn Fabinho einnig meiddur en hann hefur fyllt upp í hjarta varnarinnar þegar þess hefur þurft.

Ásamt þeim Gomez, Van Dijk, Alexander-Arnold og Fabinho eru miðjumennirnir Thiago Alcântara og Alex Oxlade-Chamberlain einnig á meiðslalistanum.

Það er þó talið að Fabinho snúi aftur er leikar hefjast að nýju í ensku úrvalsdeildinni þann 21. nóvember. Þá tekur Liverpool á móti toppliði Leicester City á Anfield. Joël Matip er í raun eini leikfæri miðvörður aðalliðsins fyrir þann leik. 

Hinn 23 ára gamli Nathaniel Phillips lék við hlið Joe Gomez í 2-1 sigrinum á West Ham United þann 31. október. Hinn 19 ára gamli Rhys Willams tók svo stöðu Phillips í hjarta varnarinnar í 5-0 sigrinum á Atalanta í Meistaradeild Evrópu þann 3. nóvember. 

Verður því forvitnilegt að sjá hvernig Jürgen Klopp stillir upp varnarlínu sinni í þeim leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×