Enski boltinn

Sjáðu pirraðan Klopp óska í­þrótta­frétta­manni til hamingju eftir leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Klopp allt annað en sáttur í leikslok.
Klopp allt annað en sáttur í leikslok. Mike Hewitt/Getty Images

Jürgen Klopp, þjálfari Englandsmeistara Liverpool, var vægast sagt pirraður í viðtali að loknu 1-1 jafntefli Liverpool gegn Brighton & Hove Albion í ensku úrvalsdeildinni í dag. Óskaði hann Des Kelly, íþróttafréttamanni BT Sport, til hamingju með meiðsli James Milner.

Liverpool gerði sum sé 1-1 jafntefli við Brighton á Amex-vellinum í dag. Mark Brighton kom úr vítaspyrnu undir lok leiks. Þá var myndbandsdómgæslan í aðalhlutverki eins og svo oft áður en tvö mörk voru dæmd af Liverpool. Ofan á það fór James Milner meiddur af velli og Klopp því mjög ósáttur er hann mætti í viðtal hjá BT Sport í leikslok.

„Við erum vanir handakrikum og merkjum á búningum en í dag var það táin, svona er þetta bara,“ sagði Klopp um rangstöður Liverpool í dag. Í kjölfarið ásakaði hann svo Kelly um að reyna búa til fyrirsagnir með því að spyrja hann um síðari vítaspyrnu Brighton í leiknum – þá sem jöfnunarmarkið kom upp úr.

Klopp sagði að hann teldi að um víti væri að ræða en bæði sumir leikmenn Liverpool og Brighton töldu að svo hefði ekki endilega verið.

„Já til hamingju,“ sagði Klopp aðspurður út í meiðsli James Milner en sá þýski hefur gagnrýnt mikið leikjaálag liða í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

„Ekki mér persónulega," svaraði Kelly yfirvegaður.

Þeir ræddu einnig pirring Mo Salah sem var tekinn af velli í dag eftir að hafa æft lítið sökum kórónuveirunnar undanfarið. Chris Wilder – stjóri Sheffield United – kom til tals en hann ku ekki vilja leyfa fimm skiptingar í ensku úrvalsdeildinni. 

Þá benti Kelly á að Klopp ætti mögulega að beina reiði sinni að ensku úrvalsdeildinni þar sem hún þarf að staðfesta alla leiktíma deildarinnar.

Þetta kostulega viðtal má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×