Enski boltinn

Þrír leik­menn úr­vals­deildarinnar stóðust ekki lyfja­próf á síðustu leik­tíð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þrír leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar stóðust ekki lyfjapróf á síðustu leiktíð.
Þrír leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar stóðust ekki lyfjapróf á síðustu leiktíð. EPA-EFE/Glyn Kirk

Þrír leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu stóðust ekki lyfjapróf deildarinnar á síðustu leiktíð. Tveimur var ekki refsað þar sem þeir vor með læknisvottorð á meðan eitt málið er enn til rannsóknar.

The Athletic greindi frá.

Tveimur málum hefur verið lokað endanlega og komst lyfjaeftirlitsstofnun Bretlands [UKAD] að þeirri niðurstöðu að leikmennirnir hefðu ekki brotið neinar reglur. Því fengu þeir að halda áfram að spila í deildinni.

Heimildir The Athletic herma að methylphenidate hafi greinst hjá öðrum af leikmönnunum tveimur sem ekki stóðust lyfjapróf á síðustu leiktíð. Er það meðal efna sem finnast í rítalíni, lyf sem er almennt notað af fólki sem glímir við ofvirkni og athyglisbrest eða einfaldlega ADHD.

Efnið er samt sem áður á bannlista Alþjóðlegu lyfjaeftirlitsstofnunarinnar [WADA] þar sem það getur bætt sprengikraft, styrk, orku og úthald. Hinn leikmaðurinn var með methylprednisolone í blóðinu. Það er lyf sem nær oftast er notað við ofnæmis viðbrögðum. Það getur einnig hjálpað íþróttamönnum að æfa oftar og af hærri ákafa. Niðurstöður þriðja efnisins hafa ekki litið dagsins ljós þar sem UKAD ku enn vera að rannsaka málið.

Leikmönnunum var ekki refsað þar sem þeir gátu sýnt fram á með læknisvottorði að þeir hafi þurft á téðum efnum að halda á þeim tíma sem þeir greindust.

Hefur jákvæðum niðurstöðum úr lyfjaprófum ensku úrvalsdeildarinnar farið fækkandi með árunum. Tímabilið 2018-2019 voru til að mynda 11 leikmenn sem greindust með efni í blóði sínu sem voru á bannlista WADA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×