Veður

Leifar felli­bylsins Epsilon nálgast landið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan níu í fyrramálið sýnir að ansi hvasst verður sunnan- og suðaustantil.
Vindaspá Veðurstofunnar klukkan níu í fyrramálið sýnir að ansi hvasst verður sunnan- og suðaustantil. Veðurstofa Íslands

Það verður fremur hæg austlæg eða norðaustlæg átt í dag, þó allt að tíu metrar á sekúndu norðvestantil. Þá verður skýjað með köflum og þurrt að kalla en lítils háttar él eða slydduél á Norðausturlandi að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Í kvöld munu svo leifar fellibylsins Epsilon nálgast landið suður úr höfum og á þá að hvessa úr austri syðst á landinu.

Þessi fyrrverandi fellibylur hefur sameinast annarri lægð sem nú eru af svipuðum styrk og vetrarlægð á norðanverðu Atlantshafi.

„Nýja lægðin staldrar dálítið við, eitthvað út vikuna. Má búast við að hvasst verði með suðurströndinni, allt að 18-23 m/s undir Eyjafjöllum og austur í Öræfum, frá og með í nótt og jafnvel fram á föstudag.

Ferðalangar á þessum svæðum ættu að fylgjast með veðurspám og viðvörunum. Við sleppum við mest alla úrkomuna úr lægðinni sem er talsverð á djúpunum suður og suðvestur af landinu.

Annars austlæg átt 8-15 m/s á morgun, hvassast norðvestantil. Lítlsháttar él um norðaustanvert landið, en bjart veður vestantil,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu:

Austan 3-10, hvassast vestanlands, en 10-15 við suðurströndina og á Vestfjörðum seinni partinn. Skýjað með köflum og þurrt að kalla, en lítilsháttar él eða slydduél norðaustantil.

Austlæg átt á morgun, víða 8-15 m/s, en 15-20 syðst. Bjart með köflum, en lítilsháttar rigning eða slydda á austanverðu landinu. Hiti 0 til 6 stig, en frost í innsveitum á Norður- og Austurlandi í kvöld og á morgun.

Á þriðjudag:

Austlæg átt, víða 8-15 m/s, en 15-20 syðst. Bjart með köflum, en lítilsháttar rigning eða slydda á austanverðu landinu. Hiti 1 til 7 stig.

Á miðvikudag:

Norðaustlæg átt, 10-18 m/s. Skýjað og lítilsháttar væta norðan- og austanlands, en bjart yfir Vesturlandi. Hiti 0 til 6 stig.

Á fimmtudag:

Stíf austanátt með rigningu um mest allt land, talsverð suðaustan- og austantil. Hiti breytist lítið.

Á föstudag:

Suðaustan kaldi og rigning um sunnan- og vestanvert landið, en þurrt að mestu og bjartara veður norðaustantil. Áfram svipaður hiti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×