Veður

Engin logn­molla í veðrinu í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Spákort fyrir hádegið eins og það leit út í morgun.
Spákort fyrir hádegið eins og það leit út í morgun. Veðurstofan

Stormur mældist á nokkrum stöðvum á sunnanverðu landinu í nótt, en nú í morgunsárið er mesti vindurinn afstaðinn og hafa gular vindviðvaranir runnið sitt skeið á enda. Það er þó ekki þannig að það verði einhver lognmolla í veðrinu á landinu í dag.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Þar segir að víða verði austan strekkingur eða allhvass vindur, en einnig sé búist við rigningu með köflum í flestum landshlutum. Þá verður talsverð rigning um tíma á Suðuausturlandi og Austfjörðum.

„Seint í dag fer að lægja sunnanlands og í kvöld dregur einnig úr vindi fyrir norðan. Hiti á bilinu 2 til 8 stig.

Á morgun hvessir aftur og má búast við sterkari vindi en í dag. Útlit er fyrir að allhvöss norðaustanátt verði algeng, en slær væntanlega í storm í vindstrengjum suðaustanlands og um landið norðvestanvert. Hann ætti að hanga þurr á Suður- og Vesturlandi, en annars staðar má búast við rigningu á láglendi og drjúg úrkoma austanlands.

Af ofansögðu má vera ljóst að veðrið á næstunni ætti ekki að hvetja fólk í óþarfa ferðalög og frílystingar,“ segir í hugleiðingum veðurfræðins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag (fyrsti vetrardagur): Gengur í norðaustan 13-18 m/s, en 18-23 suðaustanlands. Víða rigning, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst.

Á sunnudag: Norðan 10-15, en 5-10 austanlands. Rigning eða slydda um landið norðanvert, en bjartviðri sunnantil. Hiti breytist lítið.

Á mánudag og þriðjudag: Norðaustanátt og dálítil slydda eða rigning á Norður- og Austurlandi, en yfirleitt bjart sunnan heiða. Hiti 0 til 6 stig.

Á miðvikudag og fimmtudag: Norðan- og norðaustanátt með rigningu, slyddu eða snjókomu norðan- og austantil á landinu og hita um frostmark. Þurrt að kalla á Suður- og Vesturlandi og frostlaust að deginum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.