Enski boltinn

Chelsea hvorki að plata né grínast með því að setja Petr Cech á leikmannalistann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard og Petr Cech unnu marga titla saman hjá Chelsea og nú vill Lampard hafa tékkneska markvörðinn á bakvakt.
Frank Lampard og Petr Cech unnu marga titla saman hjá Chelsea og nú vill Lampard hafa tékkneska markvörðinn á bakvakt. Getty/Darren Walsh

Margir urðu hissa þegar þeir fengu leikmannalista Chelsea í hendurnar en liðin í ensku úrvalsdeildinni þurftu að tilkynna inn 25 manna leikmannalista í vikunni. Ástæðan var að þarna var vissulega kunnuglegt nafn en nafn sem um leið passaði ekki alveg við árið 2020.

Chelsea var þó hvorki að plata eða að grínast með því að setja Petr Cech á leikmannalistann sinn fyrir ensku úrvalsdeildina 2020-21. Cech er í formi og tilbúinn að hlaupa í skarðið í vandræðum.

Petr Cech lagði samt knattspyrnuskóna á hilluna vorið 2019. Lokaleikurinn hans var ekki með Chelsea heldur á móti Chelsea. Tékkinn varði mark Arsenal í tapleik á móti Chelsea í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.

Hann er nú 38 ára gamall og hefur unnið fyrir Chelsea síðan hann hætti. Cech er tæknilegur ráðgjafi hjá félaginu.

Cech var í ellefu ár hjá Chelsea og vann þrettán titla með félaginu þar á meðal varð hann fjórum sinnum enskur meistari. Hann er einn besti leikmaðurinn í sögu Chelsea.

Cech spilaði síðast fyrir Chelsea í 3-1 sigri á Sunderland í maí 2015 en hann færði sig um sumarið yfir til nágrannanna í Arsenal þar sem hann kláraði ferilinn.

Undanfarið hefur Cech verið að hjálpa til við markvarðarþjálfun liðsins og það leiddi síðan til þess að hann er neyðarmarkvörður Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

„Þetta er alls engin rómantík. Pete elskar að æfa og þannig er hann bara. Það er gott að hafa hann ef eitthvað gerist. Hann er í það góðu formi að við gætum ekki fengið betri mann en Petr Cech ef við lendum í krísu. Ég býst ekki við að hann spili en það bjóst enginn heldur við því sem hefur verið í gangi í heiminum í sex eða sjö mánuði. Það skýrir kannski af hverju hann er hér,“ sagði Frank Lampard.

„Við áttum pláss fyrir hann og Covid gerir þetta ár ólíkt öllum öðrum árum. Hann er í flottu formi og enn tiltölulega ungur. Hann hefði vel getað haldið áfram að spila þegar skórnir fóru upp á hillu. Það var algjör ‚no-brainer' að hafa hann í hópnum,“ sagði Lampard.

Af öðrum félögum má nefna að þeir Phil Jones og markvörðurinn Sergio Romero eru ekki á 25 manna lista Manchester United og Mesut Özil er ekki á listanum hjá Arsenal. Liðin geta þó kallað inn í nýja leikmenn í janúar þannig að þeir gætu ennþá allir spilað með sínu liði á leiktíðinni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.