Enski boltinn

Liverpool með versta varnarleik ríkjandi Englandsmeistara í 67 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah skoraði tvö mörk fyrir Liverpool í gær en það dugði skammt því Liverpool liðið steinlá á Villa Park.
Mohamed Salah skoraði tvö mörk fyrir Liverpool í gær en það dugði skammt því Liverpool liðið steinlá á Villa Park. EPA-EFE/Rui Vieira

Liverpool fékk á sig sjö mörk á móti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi og það þarf að fara langt aftur til að finna jafnslakan varnarleik hjá ríkjandi Englandsmeisturum.

Síðustu Englandsmeistarar til að sækja boltann sjö sinnum í sitt eigið mark var lið Arsenal tímabilið 1953 til 1954.

Umræddur leikur var 7-1 tap á útivelli á móti Sunderland sem fór fram 12. september 1953.

Eins og sést hér fyrir neðan á lista spænska tölfræðingsins Alexis Martín-Tamayo þá hafa aðeins fjórir aðrir Englandsmeistarar fengið svo mörk á sig í titilvörninni.

Liverpool var enn fremur að fá á sig sjö mörk í fyrsta sinn síðan í apríl 1963 en eins og Mister Chip sagði þá frá á Twitter síðu sinni þá voru Bítlarnir á sama tíma á toppi vinsældalistans með lagið sitt „From Me To You.“

Það er ekkert skrýtið að knattspyrnuáhugamenn klóri sér í hausnum yfir þessum úrslitum enda var Liverpool með yfirburðarlið í deildinni á síðustu leiktíð á sama tíma og Aston Villa var að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Það hefur því mikið breyst hjá þessum tveimur félögum á stuttum tíma þótt að stuðningsmenn Liverpool munu eflaust reyna að sannfæra sig og aðra um að þetta hafi bara verið slys.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur hins vegar aldrei tapað eins stórt og í þessum leik á móti Aston Villa í gærkvöldi.  Ef að þetta var slys þá var þetta stórslys.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×