Íslenski boltinn

Leikmenn beggja liða í dúndurformi og skýr skilaboð send á milli

Sindri Sverrisson skrifar
Það má segja að Íslandsmeistaratitill sé í húfi á Hlíðarenda á laugardaginn, eða því sem næst.
Það má segja að Íslandsmeistaratitill sé í húfi á Hlíðarenda á laugardaginn, eða því sem næst. VÍSIR/DANÍEL

„Liðin hafa sent skýr skilaboð sín á milli og þetta verður gríðarlega spennandi á laugardaginn,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir um toppslaginn á milli Vals og Breiðabliks í Pepsi Max-deildinni.

Það er allt undir í leik liðanna á Hlíðarenda á laugardaginn en hann verður að sjálfsögðu sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin kl. 16.40.

Valur er með eins stigs forskot á Blika en á tvo leiki eftir þegar leiknum við Blika lýkur, á meðan að Kópavogsliðið mun eiga þrjá leiki eftir. Í síðustu umferð vann Valur risasigur á Fylki, 7-0, en Breiðablik svaraði því með 8-0 sigri á ÍBV á sunnudaginn.

„Það virðist sem að leikmenn beggja þessara liða séu í dúndurformi. Þær eru vel mótíveraðar enda væri skrýtið að vera það ekki á þessum tímapunkti í mótinu,“ sagði Margrét í Pepsi Max mörkunum.

Breiðablik hefur unnið þrettán af fjórtán leikjum sínum í deildinni í sumar en tapað einu sinni, 2-1 gegn Selfossi. Eina tap Vals var 4-0 tapið á Kópavogsvelli 20. júlí en Valskonur gerðu auk þess jafntefli við Fylki, 1-1, vikuna áður.

„Það er gaman að sjá að bæði lið virðast vera að toppa sig núna og senda skýr skilaboð á milli. Mörkin sem að Valur náði að vinna upp á Blika deginum áður náðu Blikar að jafna og gott betur,“ sagði Margrét.

Klippa: Pepsi Max mörkin - Toppliðin í toppgír



Fleiri fréttir

Sjá meira


×