Íslenski boltinn

Jóhannes Karl: Það er bara ólíðandi að það sé ekki flaggað á þetta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jóhannes Karl Sigursteinsson var ekki sáttur í lok leiks.
Jóhannes Karl Sigursteinsson var ekki sáttur í lok leiks. VÍSIR/VILHELM

KR tapaði enn einum leiknum í Pepsi Max deild kvenna er liðið tapaði 2-1 gegn Selfyssingum á útivelli. KR komst yfir en tókst ekki að halda út og liðið er á botni deildarinnar sem stendur.

Þó svo að liðið eigi tvo leiki til góða er útlitið orðið nokkuð svart hjá KR-ingum sem þurfa að fara hala inn stig ef þær ætli sér ekki að falla. Jóhannes Karl Sigursteinsson, þjálfari KR, var ekki par sáttur við mörkin sem KR fékk á sig í dag.

„Þetta eru bara ákveðin vonbrigði, við erum í þeirri stöðu að við verðum að fara að taka stig í þessari deild og við ætluðum að leggja allt í þennan leik,“ sagði Jóhannes Karl eftir leik í dag.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn fínn af okkar hálfu og heilt yfir nokkuð jafn leikur en fínn fyrri hálfleikur, við förum með 1:0 forystu í hálfleikinn en mér fannst við kannski ekki ná að byggja ofan á það í seinni hálfleik. Við hleypum Selfyssingum mikið inn í leikinn þegar líður á sem endar náttúrulega með jöfnunarmarki og þá þurfum við að þrýsta ofar aftur en heilt yfir líklega ekkert ósanngjörn úrslit en ég hefði viljað fá meira út úr þessum leik.“

Jóhannes Karl var svo allt annað en sáttur við mörkin sem sitt lið fékk á sig, þá sérstaklega það fyrra. 

„Mér fannst við spila varnarleikinn ágætlega, ég er verulega ósáttur við þetta fyrra mark því mér finnst hún kolrangstæð og það er bara ólíðandi að það sé ekki flaggað á þetta. Mér fannst hafsentinn gera vel, stígur út og vinnur varnarvinnuna vel, en það er eitthvað og við fáum mark í andlitið.“

KR eru á botni deildarinnar með tvo leiki til góða á flest lið, og Jóhannes veit vel að það er mikið verkefni fram undan. 

„Að sjálfsögðu er staðan þannig að við þurfum að horfa á það, en við erum með allt í okkar höndum og það er það sem við þurfum að vinna með. Það er mikið af innbyrðis leikjum eftir í botnbaráttunni þannig að við þurfum bara að taka næsta skref áfram og horfa í Þróttaraleikinn næsta sunnudag.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.