Enski boltinn

„Jose var ekki glaður en náttúran kallaði“

Sindri Sverrisson skrifar
Eric Dier og félagar hans fögnuðu sigrinum gegn Chelsea vel, eftir klósettferðina, jöfnunarmark Erik Lamela og vítaspyrnukeppnina.
Eric Dier og félagar hans fögnuðu sigrinum gegn Chelsea vel, eftir klósettferðina, jöfnunarmark Erik Lamela og vítaspyrnukeppnina. vísir/getty

Tottenham var 1-0 undir og skammt til leiksloka þegar Eric Dier þeysti inn til búningsklefa til að komast á klósettið, við litla hrifningu knattspyrnustjórans Jose Mourinho.

„Ég var búinn að vera að glíma við magaverki og þetta var orðið of slæmt,“ sagði Dier eftir leikinn við Chelsea. Tottenham vann á endanum í vítaspyrnukeppni þar sem Dier skoraði úr fyrstu spyrnu Tottenham.

Dier var eldsnöggur á klósettinu og kom sér fljótt aftur út á völlinn, en Mourinho hafði elt hann inn til búningsklefa og virtist staðráðinn í að stöðva klósettferðina.

„Jose var ekki glaður en það var ekkert sem ég gat að gert. Náttúran kallaði,“ sagði Dier. „Ég veit ekki hvort að Jose vissi hvað var í gangi. Ég sagði Pierre-Emile Höjberg og Toby Alderweireld að ég væri að fara út af. Ég varð að gera það,“ sagði Dier.

„Varð að pressa á hann að koma til baka“

Óvíst er hvernig Mourinho hefði látið ef Tottenham hefði tapað leiknum en hann var í fínu skapi eftir leik þegar hann var spurður um atvikið:

„Það sem gerðist hjá Eric Dier er ekki eðlilegt og ég verð að hrósa honum með sérstökum hætti. Það ætti að vera bannað að leikmenn spili tvo leiki á 48 tímum á þessu stigi [Dier lék gegn Newcastle á sunnudag]. Það er ómannlegt að gera þetta.

Hann varð að fara á klósettið – hann hafði ekkert val. Það er kannski eðlilegt þegar vökvatapið er svona mikið. Ég varð að pressa á hann að koma til baka en hann er frábær fyrirmynd fyrir alla,“ sagði Mourinho.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×