Enski boltinn

Með 62 milljónir í laun á viku en kemst ekki í hópinn hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mesut Ozil fagnar marki með Arsenal en það lítur út fyrir það að hann sé búinn að spila sinn síðasta leik með félaginu. Risasamningur hans rennur þó ekki út fyrr en næsta sumar.
Mesut Ozil fagnar marki með Arsenal en það lítur út fyrir það að hann sé búinn að spila sinn síðasta leik með félaginu. Risasamningur hans rennur þó ekki út fyrr en næsta sumar. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Knattspyrnustjóri Arsenal segir það verða mjög erfitt fyrir Mesut Özil að vinna sér sæti í leikmannahópi liðsins, ekki liðinu heldur hópnum.

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, var spurður út í enn eina fjarveruna hjá Mesut Özil þegar liðið mætti Leicester City í enska deildabikarnum í gær.

Þetta var fjórði leikur Arsenal á tímabilinu og Mesut Özil hefur aldrei verið í hóp. Arteta svaraði að það yrði mjög erfitt fyrir Þjóðverjann að vinna sér sæti í leikmannahópnum.

Mesut Özil hefur ekki spilað fyrir Arsenal síðan 7. mars síðastliðinn. Hann var ekkert með liðinu þegar enska úrvalsdeildin var kláruð í sumar og hefur ekkert verið með liðinu það sem af er á þessu tímabili.

Mesut Özil skrifaði undir risasamning við Arsenal í janúar árið 2018 og er sagður frá 350 þúsund pund í vikulaun eða meira en 62 milljónir króna vikulega. Frá 7. mars hefur Arsenal því borgað Mesut Özil 1,7 milljarð króna í laun án þess að fá svo sem eina mínútu frá honum inn á vellinum.

Özil er á síðasta árinu á samningi sínum við Arsenal og félagið hefur ekki haft not fyrir hann í langan tíma. Arteta gaf honum strax tækifæri þegar hann tók við en það entist bara fram í mars.

„Liðið er í þróun og þið sjáið bara hvert það er komið á frammistöðunni. Þetta er bara staðan hjá okkur eins og er. Við viljum þróast enn frekar, spila betur og sýna meiri keppnishörku. Við þurfum að viðhalda þessu,“ sagði Mikel Arteta.

„Ég er ánægður með frammistöðuna og hversu erfitt það er orðið fyrir þjálfarateymið að velja í liðið,“ sagði Arteta.

„Við veljum alltaf þá leikmenn sem við teljum að séu bestir fyrir liðið í viðkomandi leik,“ sagði Arteta.

„Við erum að breyta til og þróa leikmenn. Það er erfitt fyrir alla leikmenn, ekki bara Meut, að komast í hópinn. Við reynum bara að velja réttu mennina í hverjum leik,“ sagði Arteta en blaðamenn vildi fá skýrari svör.

„Ég skil vel og ber virðingu fyrir ykkar spurningum. Ég verð bara að skila mínu starfi eins vel og ég get og vera eins sanngjarn og ég get. Ég reyni að velja þá leikmenn sem eru í besta forminu,“ sagði Arteta.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.