Enski boltinn

Liverpool í algjörum sérflokki meðal „stóru sex“ í því að eyða ekki pening

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp þarf áfram að treysta á heimsklassaframmistöðu frá  Mohamed Salah og fleirum ætli Liverpool að halda áfram að vinna titla.
Jürgen Klopp þarf áfram að treysta á heimsklassaframmistöðu frá  Mohamed Salah og fleirum ætli Liverpool að halda áfram að vinna titla. Getty/Shaun Botterill



Liverpool hefur eytt 48 milljörðum minna en Chelsea í nýja leikmenn í síðustu fjórum leikmannagluggum en þetta kemur fram í nýrri samantekt Sky Sports.

Liverpool hefur ekki styrkt meistaralið sitt að neinu ráði í sumar og sumir stuðningsmenn félagsins eru farnir að hafa áhyggjur. Flestum finnst full ástæða til að hrista aðeins upp í leikmannahópnum með nýjum sterkum leikmanni en ekkert gerist.

Liverpool vann yfirburðasigur í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og það þrátt fyrir að styrkja liðið nánast ekki neitt fyrir tímabilið. Nú lítur út að sama verði upp á teningnum nú.

Á sama tíma hefur Chelsea, næstu mótherjar Liverpool í ensku úrvalsdeildinni, eytt yfir tvö hundruð milljónum punda í nýja leikmenn í sumar.

Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, varði eyðslu Chelsea í sumar með því að segja að Liverpool hafi líka eytt miklu í sína leikmenn en sú fullyrðing stenst ekki alveg þegar síðustu fjórir gluggar eru skoðaðir.

Liverpool er nefnilega í algjörum sérflokki meðal „stóru sex“ í því að eyða ekki pening í síðustu fjórum gluggum eða frá og með janúarglugganum 2019.

Sky Sports tók það nefnilega saman hversu litlu Liverpool hefur eytt í nýja leikmenn miðað við hina stóru klúbbana í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea hefur eytt langmestum pening eða 302 milljónum punda. Það gerði félagið þrátt fyrir að vera í félagsskiptabanni á þessum tíma.

Manchester United er í öðru sæti með 255 milljón í nýja leikmenn og nágrannar þeirra í Manchester City hafa eytt 226 milljónum á leikmannamarkaðnum.

Tottenham er í fjórða sæti með eyðslu upp á 186 milljónir punda og Arsenal er líka langt á undan Liverpool með eyðslu upp á 173 milljónir punda en Liverpool hefur aðeins eytt 23 milljónum punda á þessu tímabili.

Það munar því 279 milljónum punda á eyðslu Chelsea og Liverpool í þessum fjórum síðustu félagsskiptagluggum eða meira en 48 milljörðum króna.

Þrátt fyrir þetta hefur Liverpool unnið Meistaradeildina, ensku úrvalsdeildina og heimsmeistarakeppni félagsliða á þessum tíma sem eru titlar sem gefið hafa félagið talsverðar aukatekjur. Þessir peningar hafa þó ekki farið í það að kaupa nýja leikmenn.

Nú er að sjá hvort eitthvað gerist áður en glugginn lokar en Liverpool hefur verið mikið á eftir spænska miðjumanninum Thiago Alcantara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×